Fara í efni
Þór

Tryggvi var frábær í mikilvægum sigri

Tryggvi Snær Hlinason, sem nær hér að vinna boltann í vörninni, var frábær í dag.

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfubolta, var frábær þegar Casademont Zaragoza sigraði Urbas Fuenlabrada, 105:85, í spænsku 1. deildinni í leik sem lauk rétt í þessu. Liðin voru jöfn að stigum í neðri hluta deildarinnar fyrir umferðina, höfðu bæði unnið fimm leiki en tapað 12, svo sigur Tryggva og félaga var afar mikilvægur.

Tryggvi var langbestur leikmanna Zaragoza: stigahæstur með 24 stig, tók níu fráköst, tveimur fleiri en næsti maður (sex í vörn og þrjú í sókn), og átti tvær stoðsendingar. Tryggvi tók 13 skot og hitti úr 12. Þegar öll tölfræði var lögð saman var Tryggvi með 33 framlagsstig en næsti leikmaður Zaragoza með 22.

Bárðdælingurinn stóri fór hamförum í fyrsta leikhluta, þar sem Zaragoza gerði 27 stig gegn 15 stigum gestanna. Hann var innan vallar allar 10 mínútur leikhlutans, gerði 10 stig, tók sjö fráköst og átti eina stoðsendingu! Tryggvi lék fjórar og hálfa mínútu í öðrum leikhluta, fimm mínútur í þriðja og rúmar átta mínútur þeim síðasta. Hann lék því í alls 27 mín. og 52 sekúndur í dag – mest allra í liðinu.