Fara í efni
Þór

Tryggvi Snær styrkti körfuboltastelpurnar

Tryggvi Snær afhenti öllum þátttakendum áritaðar myndir að námskeiðinu loknu.

Það er ekki á hverjum degi sem akureyrskir íþróttakrakkar fá landsliðsmann í íþrótt sinni inn á gólf með námskeið, en sú var þó raunin í íþróttahúsi Glerárskóla í morgun. Bárðdælingurinn og nú verðandi leikmaður baskneska félagsins Surne Bilbao Basket - já, hann er að fara að spila basketball í Baskalandi - er staddur á Akureyri og var ásamt þjálfurum frá körfuknattleiksdeild Þórs með stutt námskeið fyrir krakka í dag. Fyrst voru það krakkar fæddir 2012-2017 sem mættu til Tryggva Snæs fyrir hádegi í morgun og svo þau eldri, fædd 2007-2011 sem spreyttu sig eftir hádegið. 

Tryggvi Snær naut sín vel með krökkunum og var meðal annars boðið upp á skemmtilega leiki í lokin. Námskeiðið var haldið sem hluti af fjáröflun vegna æfingaferðar meistaraflokks kvenna í körfubolta, en Þórsliðið spilar í efstu deild á komandi tímabili, í fyrsta skipti í yfir fjóra áratugi.

Á heimasíðu Þórs er að finna myndaalbúm með nokkrum myndum frá námskeiðinu.


Ungir körfuboltakrakkar úr Samherjum í Eyjafjarðarsveit voru mættir í morgun til að fá leiðsögn hjá Tryggva Snæ. Sannarlega mikil upplifun að hitta fyrirmyndina og fá mynd af sér með honum.


Eldri hópurinn, f. 2007-2011, ásamt Tryggva Snæ og þjálfurum frá Þór eftir námskeiðið í dag. Myndir: Haraldur Ingólfsson.