Fara í efni
Þór

Toppslagur þegar Fram sækir KA/Þór heim í dag

Ásdís Guðmundsdóttir og félagar taka á móti Fram í toppslag dagsins. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Sannkallaður stórleikur er í efstu deild kvenna í handbolta, Olísdeildinni, þegar KA/Þór fær Fram í heimsókn í dag. Leikurinn hefst klukkan 15.00. Liðin eru jöfn að stigum, einu á eftir Val, en Fram á leik til góða á hin tvö. Áhorfendur eru ekki leyfðir en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Stelpurnar í KA/Þór gerðu jafntefli við Val að Hlíðarenda í síðasta leik, þar sem liðið lék gríðarlega vel. „Þessar stelpur eiga mikið hrós skilið fyrir að leggja sig svona mikið fram og vera tilbúnar að berjast í 60 mínútur í hverjum einasta leik. Við sýndum það í kvöld að þetta er alvöru liðsheild – og það verður gaman að kveikja aftur á þessum perum á laugardaginn þegar Fram kemur í heimsókn norður!“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, við Akureyri.net eftir leikinn að Hlíðarenda. Hann sagði ennfremur að frammistaðan gegn Val yki sjálfstraust leikmanna KA/Þórs til framtíðar, sem vonandi sýnir sig strax í dag.