Fara í efni
Þór

Topplið Fram sækir Þórsara heim í dag

Orri Sigurjónsson og Ólafur Aron Pétursson láta Þróttara heyra það þegar hann reyndi að „fiska“ vítaspyrnu um daginn. Dómarinn var sammála Þórsurunum og sýndi Þróttaranum gult spjald fyrir leikaraskap. Orri og Ólafur Aron voru í banni í síðasta leik en eru klárir í slaginn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór tekur á móti Fram í næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum) í dag. Leikurinn hefst klukkan 18.00.

Framarar eru langestir í deildinni með 32 stig eftir 12 leiki og ÍBV er næst með 26 stig að loknum 13 leikjum. Þórsarar eru sem stendur í sjötta sæti með 19 stig eftir 13 leiki.

Framarar hafa unnið 10 leiki í sumar og gert tvö jafntefli. Þórsarar hafa unnið fimm, gert fjögur jafntefli og tapað fjórum. Lið Þórs hefur verið á góðu skriði undanfarið og er taplaust í síðustu sex leikjum, hefur unnið þrjá og gert þrjú jafntefli. Því verður fróðlegt að fylgjast með rimmu liðanna í kvöld.

Þegar liðin mættust í fyrri umferðinni á Framvellinum sigraði Reykjavíkurliðið 4:1, þar sem Bjarni Guðjón Brynjólfsson skoraði fyrir Þór undir lokin – það var fyrsta mark hans fyrir Þór, en nú hefur þessi bráðefnilegi 17 ára piltur gert þrjú mörk í deildinni.

Í síðustu umferð unnu Þórsarar öruggan sigur á Gróttu á heimavelli, 4:2, en Framarar gerðu jafntefli við ÍBV á heimavelli, 1:1.

Á heimasíðu Þórs er bent á að vegna hertra sóttvarnarreglna verði engin upphitun fyrir stuðningsmenn í Hamri fyrir leik. „Hvað miðasölu varðar þá verða 600 miðar í boði í þremur sóttvarnarhólfum. Miðar eru seldir við hlið sem og í gegnum miðasöluappið stubbur.app. Allir miðar skráðir á nafn, kennitölu og símanúmer. Þá bendum við á að nú er grímuskylda í stúkunni,“ segir á heimasíðunni.