Fara í efni
Þór

Þriðji leikur Þórs og Snæfells í Höllinni í dag

Þór og Snæfell mætast í dag þriðja sinni í undanúrslitum 1. deildar kvenna í körfubolta. Hvort lið hefur unnið einn leik en þrjá sigra þarf til að komast í úrslit um eitt laust sæti í efstu deild.

Leikur dagsins fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og hefst klukkan 17.00.  Skýringin á óvenjulegri tímasetningu er að kl. 19.30 hefst á sama stað handboltaleikur Þórs og ungmennaliðs Vals í Grill66 deildinni í handbolta, næst efstu deild Íslandsmótsins.

Báðir leikir Þórs og Snæfells til þessa hafa verið spennandi og skemmtilegir. „Í fyrsta leik liðanna sem fram fór í Höllinni var boðið uppá allt sem góður körfubolti getur boðið uppá,“ segir á heimasíðu Þórs. „Hraði, leikgleði, spenna innan vallar sem utan og það kunnu þeir fjölmörgu áhorfendur svo sannarlega að meta. Þeir áhorfendur sem voru ríflega 170 munu vafalítið mæta aftur þeir vilja ekki missa af svona veisluhöldum. Því er von okkar og trú að enn fleiri áhorfendur mæti nú og njóti þeirra skemmtunar sem í boði er og styðji Þór til sigurs.“ 

Þar segir einnig: „Veislan verður einnig utan vallar því fyrir leik og í hálfleik verður grillið sjóðandi heitt og í boði verða safaríkir hamborgarar og drykkir á vægu verði. Miðaverð á leikinn er 2.000 krónur en frítt fyrir 16 ára og yngri.“ 

Þeim sem ekki eiga þess kost að koma á leikinn er bent á að leikurinn verður í beinu streymi á ÞórTV https://www.livey.events/thortv