Fara í efni
Þór

Þriðja tapið – Connors og Lawton meiddir

Dúi Þór Jónsson lék vel gegn Vestra í kvöld en það dugði ekki til. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar eru án sigurs eftir þrjár umferðir í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta, Subway deildinni. Þór tapaði fyrir Vestra á Ísafirði í kvöld, 88:77, og Ísfirðingarnir fengu þar með fyrstu stigin í vetur.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 20:19 – 27:20 – 47:39 – 22:20 – 19:18 – 88:77

Þórsliðið mætti vængbrotið til leiks því hvorki Jordan Connors né Jonathan Lawton voru með;  Connors, sem hefur verið besti maður liðsins í vetur, meiddist í bikarleiknum gegn Fjölni og Lawton, sem meiddist í fyrstu umferð deildarinnar, hefur ekki leikið síðan nema hálfan bikarleikinn.

Fyrsti leikhluti var jafn eins og sjá má á tölunum en vert að geta þeirrar ótrúlegu staðreyndar að Þórsarar reyndu þá átta 3ja stiga skot en brást bogalistin í öll skiptin. Alls skutu þeir 34 sinnum utan 3ja stiga línunnar í leiknum og hittu aðeins átta sinnum; nýtingin 23%.

Heimamenn voru átta stigum yfir í hálfleik og munurinn var 10 stig þegar fjórði og síðasti leikhluti hófst. Þórsarar hófu lokakaflann betur, staðan varð fljótlega 69:65 og þeir eygðu jafnvel sigur þrátt fyrir fjarveru tveggja lykilmanna. Þá tók hins vegar bandaríski bakvörðurinn Ken-Jah Bosley hjá Vestra til sinna ráða; hann gerði 16 af síðustu 19 stigum liðsins, þar af þrjár 3ja stiga körfur. Þórsarar réðu ekkert við hann.

Mesti munur í leiknum var 18 stig, 88:70, en Þórsarar löguðu stöðuna með síðustu sjö stigunum.

Dúi Þór Jónsson var besti leikmaður Þórs í kvöld; lék nánast allan tímann og var í raun frábær að flestu leyti: gerði 25 stig, gaf átta stoðsendingar og tók sex fráköst. Atle Bouna N'Diaye og Eric Etienne Fongue stóðu sig býsna vel þrátt fyrir afleita nýtingu utan 3ja stiga línunnar, en hefðu þurft að taka enn frekar af skarið í forföllum Connors og Lawton.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði leiksins.