Fara í efni
Þór

Þórsstelpurnar fengu silfurverðlaunin

Leikmenn Þórsliðsins og hópur stuðningsmanna þess í Garðabænum að leikslokum í kvöld.

Kvennalið Þórs tapaði fyrir Stjörnunni í Garðabæ í kvöld í síðastu viðureigninni um sigur í 1. deildinni í körfubolta. Stjarnan vann þar með þrjá leiki og Þór tvo; Garðbæingar fá gullverðlaunin en Þórsarar silfrið en bæði lið höfðu þegar tryggt sér sæti í efstu deild næsta vetur.

Lokatölur í kvöld urðu 67:57 eftir að Stjarnan var ellefu stigum yfir í hálfleik, 36:25.

  • Skorið eftir leikhlutum: 18:14 – 18:11 (36:25) – 18:19 – 13:13 – 67:57

Segja má að munurinn sem myndaðist í öðrum leikhluta hafi skipt sköpum því aðrir hlutar voru hnífjafnir og Þórsarar unnu seinni hálfleikinn með einu stigi.

Tuba Poyraz skoraði 15 stig og tók 15 frá­köst fyr­ir Þór. Hrefna Ottós­dótt­ir gerði 14 stig.

Bæði þessu lið og stuðningsmenn þeirra sýndu í kvöld að þau eiga fullt erindi í efstu deild, að sögn útsendara Akureyri.net á leiknum. Þórsliðið náði ekki að sýna allra bestu hliðarnar í kvöld en í raun munaði ekki miklu. Bæði lið geta í raun gengið sátt frá borði, svo og stuðningsmennirnir því stemningin var frábær að hans sögn. Á milli 70 og 80 rauðklæddir Þórsarar á áhorfendapöllunum og fjöldi bláklæddra Garðbæinga einnig.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina