Fara í efni
Þór

Þórsstelpurnar fara upp í efstu deild

Sigri hrósandi Þórsarar eftir sigurinn í Stykkishólmi í kvöld.

Kvennalið Þórs í körfubolta leikur í efstu deild Íslandsmótsins næsta vetur í fyrsta skipti í 45 ár! Þórskonur léku síðast í deild þeirra bestu veturinn 1977 til 1978.

Þórsliðið vann Snæfell í Stykkishólmi í í kvöld í undanúrslitum eftir framlengingu, 100:90. Þetta var fjórði leikur liðanna í undanúrslitum og Stelpurnar okkar unnu einvígið 3:1.

Þegar úrslitakeppnin hófst var reglugerð Körfuknattleikssambandsins (KKÍ) þannig að fjögur efstu lið næst efstu deildar berðust um eitt laust sæti í þeirri efstu næsta vetur. Akureyri.net hefur fjallað um að sigurvegarinn í rimmu Þórs og Snæfells léki í framhaldinu við annað hvort Stjörnuna eða KR til úrslita í deildinni og sigurvegari þeirrar glímu færi upp. Nú hefur verið upplýst að breyting var samþykkt á ársþingi KKÍ fyrir fáeinum dögum og tekur gildi strax: vissulega mætast tvö lið um sigur í deildinni en þau fara bæði upp í efstu deild!

Stjarnan vann KR í hinum undanúrslitunum og leikur við Þór um gullið, en bæði Þór og Stjarnan leika sem sagt í efstu deild næsta vetur.

Leik­ur­inn í Stykkishólmi í kvöld var æsispenn­andi eins og fyrri viðureignir liðanna. Staðan í hálfleik var 44:36 fyrir Þór en þegar leiktíminn var að renna út höfðu Snæfellingur þriggja stiga forystu, 81:78, og allt stefndi í að liðin yrðu að mætast í fimmta skipti. Þá sté fram Eva Wium Elíasdóttir og jafnaði með mögnuðu þriggja stiga skoti!

Þessi glæsilega karfa Evu kveikti svo sannarlega í leikmönnum Þórs og hópi stuðningsmanna sem fylgdi þeim vestur og gestirnir voru miklu sterkari í framlengingunni og unnu leikhlutann 19:9.

Framlag Þórsara í leiknum var sem hér segir:

  • Madi­son Anne Sutt­on 27 stig, 15 fráköst, ​5 stoðsendingar
  • Tuba Poyraz 23 stig, ​18 frá­köst, 2 stoðsendingar
  • Hrefna Ottós­dótt­ir 18 stig, ​1 frákast, 5 stoðsend­ing­ar
  • Heiða Hlín Björns­dótt­ir 16 stig, ​1 frákast, 6 stoðsend­ing­ar
  • Eva Wium Elías­dótt­ir 11 stig, ​4 frá­köst, ​5 stoðsend­ing­ar
  • Kar­en Lind Helga­dótt­ir 3 stig
  • Emma Karólína Snæ­bjarn­ar­dótt­ir 2 stig, 2 fráköst
  • Rut Herner Konráðsdóttir 1 stoðsending

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Hópur Þórsara fylgdi stelpunum vestur í Stykkishólm og hvatti þær til dáða.