Fara í efni
Þór

Þórssigur í alvöru spennutrylli

Tuba Poyraz horfir á eftir boltanum þegar hún tryggði Þórsliðinu sigur með þriggja stiga skoti, sjö sekúndum fyrir leikslok. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsstelpurnar höfðu betur, 80:78, í fyrsta leiknum gegn Snæfelli í undanúrslitum 1. deildarinnar í körfubolta í Íþróttahöllinni á Akureyri síðdegis. Eftir að gestirnir höfðu verið yfir síðan í fyrsta leikhluta tóku Þórsarar frábæran sprett í þeim fjórða og síðasta. Þrjá sigra þarf til að komast í úrslitarimmu um eitt laust sæti í efstu deild.

  • Skorið eftir leikhlutum: 13:16 – 18:18 (31:34) – 22:26 – 27:18 – 80:78

Tuba Poyraz tryggði Þórsliðinu sigur með þriggja stiga skoti þegar sjö sekúndur voru eftir af leiknum. Lokaspretturinn var æsispennandi:

Ein og hálf mínúta var eftir þegar Þórsarar komust yfir í fyrsta skipti síðan í fyrsta leikhluta; Hrefna Ottósdóttir skoraði þá með glæsilegu þriggja stiga skoti úr horninu – kom Þór í 74:73.

Gestirnir komust einu stigi yfir á ný er Minea Ann-Kristin Takala hitti úr þremur vítaskotum, þegar 44 sekúndur voru eftir.

Hrefna hikaði hvergi í næstu sókn Þórs og setti niður annað þriggja stiga skot þegar 32 sekúndur voru eftir.

Spennan hélt áfram. Gestirnir komust yfir 78:77 þegar 22 sekúndur voru eftir.

Þegar sjö sekúndur lifðu leiks fetaði Tuba Poyraz í fótspor Hrefnu; fékk boltann í horninu, spennan var áþreifanleg í húsinu og margir á nálum á áhorfendabekkjunum, eins og sjá má á efstu myndinni! Tuba, sem hafði sig lítið í frammi í leiknum og hafði mistekist eina þriggja stiga skotið til þessa, brást ekki á ögurstundu og skoraði örugglega! Reyndust það síðustu stigin því gestunum brást bogalistin í síðasta skoti leiksins.

Hrefna Ottósdóttir var frábær í sókninni og gerði 25 stig, Madison Anne Sutton 24 og Heiða Hlín Björnsdóttir 16.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Hrefna Ottósdóttir gerir þriggja stiga þegar ein og hálf mínúta var eftir og kom Þór yfir í fyrsta skipti síðan í fyrsta leikhluta. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Búið! Þarna gall lokaflautið og ljóst að Þórsarar höfðu sigur í þessum spennutrylli gegn Snæfelli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson