Fara í efni
Þór

Þórsarar unnu og fara í oddaleik

Það var heldur betur kátt í Höllinni að leik loknum í dag. Ljósmynd: Páll Jóhannesson

Einvígi Þórs og Stjörnunnar í 1. deild kvenna í körfubolta – sem að hluta til er tilgangslaust þar sem bæði liðin hafa nú þegar tryggt sér sæti í efstu deild á næsta tímabili – hélt áfram á sömu nótum og áður, frábær skemmtun fyrir stuðningsmenn og spennandi leikur með áhlaupum fram og til baka.

Fjórði leikur liðanna fór fram á Akureyri í dag, en með sigri hefði Stjarnan getað tryggt sér sigur í einvíginu. Þórsstelpurnar voru ekki tilbúnar í sumarfríið alveg strax og jöfnuðu einvígið í 2-2 með sjö stiga sigri, 91-84. Liðin mætast því í oddaleik í Garðabænum á þriðjudagskvöldið kl. 19:15.

  • Gangur leiksins eftir leikhlutum: 22:25 – 26:12 (48:37) – 23:21 – 20:26 – 91:84

Þegar lykilmaður meiðist skiptir breiddin sköpum

Heiða Hlín Björnsdóttir og Tuba Poyraz leiddu Þórsliðið í stigaskori, báðar með 19 stig. Tuba einnig með 11 fráköst, flest allra í leiknum. Hrefna Ottósdóttir kom næst með 15 stig og Maddie Sutton með 13 stig og átta fráköst. Maddie, sem næstum alltaf spilar svo til allan leiktímann, meiddist snemma í öðrum leikhluta, en náði þó að jafna sig, halda áfram í seinni hálfleiknum og klára leikinn.

Fyrsti leikhluti var jafn og skiptust liðin á að leiða, en Stjarnan með þriggja stiga forskot að honum loknum. Þórsstelpurnar létu fjarveru Maddie í öðrum leikhluta ekki á sig fá og unnu leikhlutann með 14 stiga mun. Þannig náðu stelpurnar 11 stiga forskoti eftir fyrri hálfleikinn. Það hefur sýnt sig í leikjum Þórsliðsins í vetur að breiddin skiptir máli því þegar einni gengur illa stígur önnur upp í staðinn. Maddie spilar að jafnaði hátt í 38 mínútur í hverjum leik, en náði tæpum 32 mínútum í dag. Hún hitti úr öllum sínum skotum í dag, fimm tveggja stiga og einu þriggja stiga.

Enn og aftur leikur áhlaupa

Liðin skiptust svo á áhlaupum í seinni hálfleiknum og munurinn varð mestur 16 stig Þórsurum í vil, en eins og oft áður kom áhlaup frá Stjörnunni, Þórsarar svöruðu með áhlaupi á móti og þannig gekk seinni hálfleikurinn fyrir sig, fram og til baka. Þórsarar létu þó aldrei forskotið af hendi.

Um tíma í fjórða leikhluta var eins og Þórsliðið héldi að sigurinn væri unninn og Stjarnan náði að minnka muninn næstum óþægilega mikið. Þórsstelpurnar stóðust þó síðasta áhlaupið og unnu að lokum með sjö stiga mun.

Helstu tölur hjá Þórsliðinu: Tuba Poyraz 19 stig/11 fráköst/4 stoðsendingar, Heiða Hlín Björnsdóttir 19, Hrefna Ottósdóttir 15, Maddie Sutton 13/8/8, Eva Wium Elíasdóttir 8, Rut Herner Konráðsdóttir 8/7 fráköst, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 8, Karen Lind Helgadóttir 1.

Þetta var síðasti heimaleikur Þórsliðsins í vetur, en umfjöllun um liðið verður ekki kláruð nema með því að minnast á stuðningsfólkið. Stemningin var frábær í Íþróttahöllinni í dag eins og langflestum heimaleikjum liðsins í vetur. Þó Höllin gleypi áhorfendur og 200 manns á leikjum virðist ekki mikið hefur náðst upp mikil stemning og öflugur stuðningur á heimaleikjum – og sumum útileikjum – liðsins í vetur sem sannarlega á þátt í velgengni þess.

Lokaleikur tímabilsins verður sem fyrr segir í Garðabænum þriðjudaginn 18. apríl og hefst kl. 19:15.

Bæði liðin „lögð niður“

Að leik loknum á þriðjudagskvöldið verður sigurvegari 1. deildarinnar krýndur, en vegna samþykktar á ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands í lok mars, sama dag og undanúrslit 1. deildar kvenna hófust, varð ljóst fyrir nokkru að bæði þessi lið munu leika í efstu deild á næsta tímabili eftir að Stjarnan sló út KR og Þór sló út Snæfell.

Í því sambandi er áhugavert að velta fyrir sér tilvist kvennaliða þessara félaga á undanförnum árum. Þórsliðið var lagt niður um tíma og tók ekki þátt í Íslandsmótinu 2019-20 og 2020-21. Stjarnan komst í undanúrslit Dominos-deildarinnar vorið 2019, ákveðið var sumarið 2019 að leggja liðið niður. Raunin varð síðan að félagið gaf eftir sætið í efstu deild og ætlaði að tefla fram liði í 1. deild 2019-20, en hætti við og mætti aftur til leiks í 1. deildinni haustið 2020, eftir árs hlé. Þórsarar tóku hins vegar tveggja ára frí og eru nú á sínu öðru ári í 1. deildinni eftir hléið. Nú bíður Subway-deildin beggja liðanna og verður áhugavert að fylgjast með gengi þeirra þar með fjölgun liða í deildinni.