Fara í efni
Þór

Þórsarar unnu og enduðu um miðja deild

Aron Ingi Magnússon gerði tvö mörk fyrir Þór í dag. Hér fagnar hann seinna markinu undir lokin. Ljósmyndir: Páll Jóhannesson

Þórsarar unnu Grindvíkinga mjög örugglega á heimavelli í dag, 3:0, í síðustu umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þórsliðið endaði þar með í sjöunda sæti deildarinnar.

Baráttan í neðri hluta deildarinnar var æsispennandi fyrir leiki dagsins; Ægir reyndar fallinn fyrir löngu en nokkur lið börðumst um að sleppa við næst neðsta sætið og þar með fall. Þórsarar voru ekki lausir við falldrauginn þótt mestar líkur væru á að þeir héldu sér uppi því þrjú önnur lið þurftu öll að ná hagstæðum úrslitum. Og fyrst Þórsarar sigruðu í dag skiptu önnur úrslit engu máli.

Svo fór að lið Selfoss féll úr deildinni en Þróttur og Njarðvík héldu sætum sínum. Akurnesingar urðu efstir og fara upp í Bestu deildina en Afturelding, Fjölnir, Vestri og Leiknir í umspil um hitt lausa sætið í efstu deild.

  • 1:0 Þórsarar náðu forystu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Alexander Már Þorláksson fékk dauðafæri en náði ekki að skora, boltinn barst út til hægri til Marc Rochester sem beið rólegur og sendi síðan á hárréttum tíma inn á markteiginn þar sem Aron Ingi Magnússon var mættur og skoraði.
  • 2:0 Annað mark Þórs kom á 58. mín. Bjarni Guðjón Brynjólfsson skaut að marki utan vítateigs, boltinn breytti aðeins um stefnu af varnarmanni og Aron Dagur markvörður átti enga möguleika á að verja.
  • 3:0 Aron Ingi Magnússon gerði annað mark sitt og þriðja mark Þórs á 86. mín. Hann skoraði þá af stuttu færi eftir sendingu Bjarna Guðjóns, sem kvaddi uppeldisfélagið með glæsibrag; marki og stoðsendingu. Bjarni hefur samið við Val í Reykjavík og heldur því á vit nýrra ævintýra.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna. Hún er reyndar ekki komin á vef KSÍ þegar þetta er skrifað en hlýtur að vera væntanleg.

Hermann Helgi Rúnarsson, Marc Rochester Sörensen, Bjarni Guðjón Brynjólfsson (7) og Alexander Már Þorláksson fagna marki Bjarna Guðjóns í dag. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Bjarni Freyr Guðmundsson, til vinstri, og Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs. Bjarni afhenti deildinni styrk upp á 750.000 kr. úr Minningarsjóði föður síns, Guðmundar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi formanns Þórs.