Fara í efni
Þór

Þórsarar steinlágu fyrir Haukum

Igor Kopyshynskyi var markahæstur Þórsara gegn Haukum í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar riðu ekki feitum hesti frá viðureigninni við Hauka í Olísdeildinni í handbolta á Ásvöllum í Hafnarfirði í gær. Haukar sigruðu með 11 marka mun, 33:22. Þórsliðið stóð sig prýðilega lungann úr fyrri hálfleik en var afleitt í þeim seinni.

Haukar náðu forystu strax í byrjun en Þórsarar komust tveimur mörkum yfir um miðjan hálfleikinn, 7:5. Heimamenn spýttu þá í lófana á ný og höfðu forystu í hálfleik, 14:10.

Þórsarar áttu engin svör við mjög góðri frammistöðu Hafnarfjarðarliðsins í seinni hálfleik. Sóknarleikurinn var dapur og greinilega að Þórsliðið saknaði leikstjórnandans Valþórs Atla Guðrúnarsonar, sem er prímusmótor í sóknarleiknum. Valþór fór úr axlarlið gegn Val á dögunum og óljóst hvort og þá hvenær hann mætir til leiks á ný.

,,Við vorum hræðilegir í seinni, þetta var leikur í fyrri, 14-10 og við töluðum um í hálfleik að halda áfram að vera duglegir,“ sagði Halldór Örn Tryggvason, annar þjálfara Þórs, við Vísi eftir leikinn.

Igor Kopyshynskyi gerði 6 mörk (4 víti), Karolis Stropus 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 2, Aron Hólm Kristjánsson 2, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 2, Arnar Þór Fylkisson 1, Garðar Már Jónsson 1 og Sigurður Kristófer Skjaldarson 1. Jovan Kukobat og Arnar Þór Fylkisson vörðu 4 skot hvor.