Þór
Þórsarar semja við þrjá nýja körfuboltamenn
17.07.2023 kl. 15:51
Nýir leikmenn í röðum körfuknattleiksliðs Þórs: Michael Walcott, Sigurjón Trausti Guðgeirsson Hjarðar ásamt Stefáni Péturssyni, formanni körfuknattleiksdeildar Þórs, og Reynir Bjarkan Róbertsson með Jóni Inga Baldvinssyni, stjórnarmanni.
Körfuknattleiksdeild Þórs hefur samið við þrjá nýja leikmenn fyrir keppni í 1. deildinni á komandi tímabili, einn Bandaríkjamann og tvo Íslendinga; annar þeirra kemur frá Hetti og hinn frá Tindastóli.
Leikmennirnir eru skotbakvörðurinn Michael Walcott, Reynir Bjarkan Róbertsson, bakvörður, og miðvörðurinn Sigurjón Trausti Guðgeirsson Hjarðar.
Um þremenninganna segir á heimasíðu Þórs:
- Reynir er 188 sm hár bakvörður, fæddur árið 2004. Hann spilaði á síðasta ári fyrir Íslandsmeistara Tindastól en auk þess var hann lykilmaður í ungmennaflokksliði Stólanna sem vann sína deild. Reynir er virkilega efnilegur leikmaður sem getur búið til færi fyrir sjálfan sig og aðra á fjölbreyttan hátt. Hann mun hjálpa okkur mikið í stöðu bakvarðar/leikstjórnanda ásamt Smára og Hákoni.
- Sigurjón kemur til okkar frá Hetti þar sem hann var í æfingahópi meistaraflokks á síðasta ári en vegna meiðsla og styrks hópsins fékk Sigurjón ekki mörg tækifæri til að sanna sig. Sigurjón er 202 sm á hæð og sterklega byggður en hann mun koma til með styrkja okkur í baráttunni í kringum körfuna. Sigurjón er fæddur árið 2000.
- Michael er 183 sm skotbakvörður frá Bandaríkjunum. Hann hefur búið á Íslandi undanfarin þrjú ár og hefur á þeim tíma spilað fyrir fjölda liða. Vegna reglugerða um erlenda leikmenn hefur það reynst Mike erfitt að finna sér lið þar sem aðeins má spila einum bandarískum leikmanni í hverju liði, en flest fá til sín bandarískann atvinnumann. Á næsta ári mun Mike færast inn á þriggja ára regluna og því getað spilað án hamla. Michael Walcott er mikill orkubolti og sterkur karakter en hann mun koma með reynslu og orku inn í hópinn. Mike er fæddur árið 1989.
Smellið hér til að fara á heimasíðu Þórs