Fara í efni
Þór

Þórsarar lögðu Vængi Júpíters að velli

Jóhann Einarsson var besti maður vallarins í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór sigraði Vængi Júpíters 28:23 í í kvöld í næstu efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Grill-66 deildinni. Leikið var í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Þórsarar eru þar með komnir með átta stig eftir sjö leiki; hafa unnið fjóra en tapað þremur.

Gestirnir höfðu eins marks forystu í hálfleik, 13:12. Þeir leika býsna langar sóknir, reyna að halda hraðanum niðri og drógu Þórsarana að nokkru leyti niður á sama plan. Vængirnir héldu naumri forystu framan af seinni hálfleik en þá spýttu heimamenn í lófana, komust nokkrum mörkum fram úr og sigurinn var öruggur.

Jóhann Einarsson lék sérlega vel í kvöld, gerði 12 mörk og átti sex stoðsendingar. Vert er að geta þess að Norður-Makedóninn Tomislav Jagurinovski kom ekkert við sögu í kvöld; hann meiddist lítillega í síðasta leik og fékk að hvíla sig til öryggis. Hann ætti að verða klár í slaginn gegn ungmennaliði Selfoss um næstu helgi. 

Mörk Þórs: Jóhann Einarsson 12, Viðar Ernir Reimarsson 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Ágúst Örn Vilbergsson 3,  Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 2, Halldór Yngvi Jónsson 2 og Kristján Gunnþórsson 1.

Arnar Þór Fylkisson varði 13 skot, þar af 1 víti.