Fara í efni
Þór

Þórsarar léku vel en töpuðu í Árbænum

Aron Birkir Stefánsson fékk dæmdar á sig tvær vítaspyrnur í dag og varði aðra þeirra. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar urðu að gera sér að góðu 4:0 tap fyrir Fylkismönnum á útivelli í dag, í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins.

Eftir markalausan fyrri hálfleik gerði Fylkir fjögur mörk á síðustu 20 mínútunum, en Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, var þó mjög ánægður með spilamennsku sinna manna. „Við vorum betri aðilinn fyrstu 60-70 mínúturnar, hápressuðum þá og létum þeim líða illa á heimavelli. Ég er mjög sáttur við spilamennskuna fyrstu 70 mínúturnar,“ sagði hann við fotbolta.net.

Fylkir gerði fyrsta mark leiksins á 70. mínútu úr víti, sem dæmt var á Aron Birki markvörð Þórs. Hann var reyndar afar ósáttur við þá ákvörðun dómarans. Víti var einnig dæmt á Aron Birki í fyrri hálfleik en þá gerði hann sér lítið fyrir og varði spyrnuna.

Þórsarar vildu svo fá víti á 78. mín. vegna brots á Ion Perelló Machi, en Einar Ingi Jóhannsson dómari sá ekki ástæðu til þess að blása í flautuna og Fylkismenn komust í 2:0 í næstu sókn.

„Ég held að þetta atvik í stöðunni 1-0 þegar við eigum að fá vítaspyrnu en þeir fara upp og skora 2-0, það er svo rosalega mikill munur á því að við séum að fara að jafna eða þeir að skora 2-0 og klára leikinn, það var lykilatriði í leiknum,“ sagði Þorlákur og bætti við: „Þetta er ekki boðlegt, í gamla daga kölluðu menn þetta heimadómgæslu, frá úrvalsdeildardómara er þetta ekki boðlegt.“

Smellið hér til að sjá leikskýrluna.