Þór
Þórsarar leika í Grindavík í kvöld
27.07.2022 kl. 14:30
Elvar Baldvinsson í baráttu um boltann í vítateig Grindvíkinga í fyrri leik liðanna í sumar. Þórsarinn fyrir aftan hann er Bjarni Guðjón Brynjólfsson og lengst til vinstri er Hermann Helgi Rúnarsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Þórsarar sækja Grindvíkinga heim í dag í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins. Flautað verður til leiks klukkan 18.00.
Grindvíkingar töpuðu 5:4 fyrir Aftureldingu í skrautlegum leik á heimavelli í síðustu umferð en Þórsarar fögnuðu þá hins vegar sigri, 4:2, á liði Kórdrengja á útivelli.
Þór hefur 14 stig í 10. sæti deildarinnar en Grindavík er tveimur sætum ofar með þremur stigum meira. Með sigri í kvöld kæmust Þórsarar sem sagt upp að hlið Grindvíkinga.
Fyrri leik Þórs og Grindavíkur í sumar lauk með jafntefli, 1:1, þar sem suður-kóreski framherjinn Jewook Woo jafnaði fyrir Þór í uppbótartíma. Hér má sjá umfjöllun Akureyri.net um leikinn.