Þór
Þórsarar höfðu ekki roð við Stjörnumönnum
18.02.2021 kl. 22:25
Sigurður Kristófer Skjaldarson sækir að vörn Stjörnumanna í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Við ramman reip var að draga þegar Þórsarar fengu Stjörnumenn í heimsókn í kvöld í Olísdeildinni í handbolta. Stjarnan burstaði Val í síðasta leik að Hlíðarenda þannig að vitað var að verkefni kvöldsins yrði erfitt. Svo fór að Stjarnan vann öruggan sigur, 27:20, eftir að gestirnir voru mest tíu mörkum yfir.
Þórsarar voru frískir í byrjun og komust í 4:1 eftir rúmar átta mínútur en þá snéru Stjörnumenn leiknum sér í hag og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 12:8. Yfirburðirnir voru miklir í seinni hálfleik, sóknarleikur Þórsara var afleitur langtímum saman og þeir náðu heldur ekki að spila nógu góðu vörn. Því fór sem fór.