Fara í efni
Þór

Þórsarar höfðu ekki roð við Eyjamönnum

Igor Kopyshynskyi og Þórður Tandri Ágústsson voru markahæstir í Þórsliðinu í Eyjum í dag.

Eyjamenn reyndust of sterkir fyrir Þórsara þegar liðin mættust í Olís deildinni í handbolta í Vestmannaeyjum í dag. ÍBV sigraði 35:27 eftir að staðan var 19:15 í hálfleik.

Fyrri hálfleikurinn var í nokkru jafnvægi, staðan 5:5 eftir fimm mínútur en heimamenn alltaf með frumkvæðið eftir það, og komust nokkrum mörkum yfir en Þórsarar voru þó aldrei langt undan.

Þórsarar minnkuðu muninn í þrjú mörk snemma í seinni hálfleik en eftir það keyrðu heimamenn upp hraðann, gerðu næstu fjögur mörk, og þar með voru úrslitin ráðin.

Mörk Þórs: Igor Kopyshynskyi 7 (1 víti), Þórður Tandri Ágústsson 5, Hafþór Ingi Halldórsson 3, Karolis Stropus 3, Gísli Jörgen Gíslason 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Arnþór Gylfi Finnsson 2, Viðar Ernir Reimarsson 1 (víti),

Ótrúleg lítil markvarsla í leiknum vekur athygli. Jovan Kukobat varði 2 skot (af 21 sem hann fékk á sig) og Arnar Þór Fylkisson 1 (af 17). Tölfræðin hjá ÍBV var ekki mikið skárri; Björn Viðar Björnsson varði 4 skot en Petar Jokanovic ekki eitt einasta, þótt hann léki í töluverðan tíma.

„Ég er gríðarlega svekktur,“ sagði Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórsara í samtali við Vísi eftir leikinn. „Miðað við hvernig við spiluðum heilt yfir þá erum við inni í leiknum. Ég er svekktastur með hvernig menn koma inn í seinni hálfleikinn,“ sagði Halldór. „Við töluðum um það í hálfleik að þetta væri langt frá því að vera búið. Við vorum að gera vel sóknarlega og varnarlega stóðu menn ágætlega. Það vantaði upp á markvörslu í dag.“

„Það er ákveðinn gæðamunur á liðunum. Við erum með þunnskipaðan hóp og þeir ná að rúlla betur en við. Það er kannski stóri munurinn,“ sagði Halldór Örn.