Fara í efni
Þór

Þórsarar fögnuðu sigri á ungum Frömurum

Þórsarar fagna sigrinum í gærkvöldi. Mynd af Facebook síðu handboltadeildar Þórs.

Þórsarar sigruðu ungmennalið Fram 27:20 í Úlfarsárdalnum í Reykjavík í gærkvöld í Grill 66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta.

Þetta var fyrsti leikur liðsins síðan þjálfaranum Stevce Alusovski var sagt upp störfum. Halldór Örn Tryggvason, aðstoðarmaður Stevce sem er í feðraorlofi, tók að sér að stýra liðinu í leiknum og naut aðstoðar Kristins Björgúlfssonar, fv. þjálfara ÍR.

Þór hafði eins marks forskot í hálfleik, jafnræði var með liðunum framan af seinni hálfleiknum en Þórsarar náðu smám saman betri tökum  á leiknum og sigruðu örugglega eftir mjög góðan lokasprett.

Arnar Þór Fylkisson lék mjög vel í marki Þórs og varði 19 skot – 48,7%.

Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 6, Kostadin Petrov 6, Josip Vekic 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Jón Ólafur Þorsteinsson 3, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 1, Ágúst Örn Vilbergsson 1 og Jonn Rói Tórfinsson 1.

Arnór Þorri, prímusmótor í leik liðsins í vetur, fór meiddur af velli eftir 20 mín. eftir að hafa snúið sig illa á ökkla. Vonandi eru meiðslin ekki eins slæm og talið var í fyrstu.

Þórsliðið hefur þar með unnið þrjá leiki í deildinni, gert eitt jafntefli og tapað fjórum. Með sigrinum skutust Þórsarar upp í 5. sæti deildarinnar, hafa sjö stig eins og Víkingur og Fjölnir, sem eiga reyndar bæði leiki til góða á Þór.

Næsti leikur Þórs er er næsta föstudag þegar ungmennalið Selfoss kemur í heimsókn í Höllina.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.