Fara í efni
Þór

Þórsarar fengu skell í Grafarvoginum

Harley Willard skoraði í kvöld og hefur þar með gert bæði mörk Þórs á Íslandsmótinu í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu 4:1 fyrir Fjölni í Grafarvoginum í kvöld í 2. umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu.

Óhætt er að segja að verkefni Þórsara hafi verið strembið; leikurinn var í jafnvægi framan af en eftir að heimamenn gerðu tvö mörk í fyrri hálfleik áttu Þórsarar litla möguleika.

Fjölnir komst í 1:0 eftir tæpan hálftíma og 2:0 fimm mín. fyrir lok fyrri hálfleiks. Bæði mörkin komu eftir hornspyrnu og vandræðagang í vörn Þórsara. Þriðja markið kom snemma í seinni hálfleik úr víti. Stuttu fyrir leikslok minnkaði Harley Willard muninn fyrir Þór með frábæru skoti frá vítateig en Fjölnismenn höfðu þó tíma til að bæta fjórða markinu við.

Þór er með þrjú stig eftir tvær umferðir. Liðið vann Kórdrengi á heimavelli í fyrstu umferðinni með marki Willards.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna