Fara í efni
Þór

Þórsarar byrjuðu með sigri á Völsurum

Aron Hólm Kristjánsson skorar næst síðasta mark Þórs af harðfylgi. Þórsarar voru tveimur mönnum færri og staðan jöfn þegar hann braust í gegn og skoraði. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar hófu handboltavertíðina í dag með tveggja marka sigri, 28:26, á ungmennaliði Vals í Grill 66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins. Liðin mættust í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Þórsarar höfðu frumkvæðið frá upphafi og voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11. Þeir höfðu áfram eins til þriggja marka forystu þar til ein mínúta og 20 sekúndur voru eftir þegar Valsmenn náðu að jafna.

Þegar tæpar tveir mínútur voru eftir og staðan 26:25 var Sigurður Ringsted Sigurðsson rekinn af velli og Þórsarar því einum færri. Til að bæta gráu ofan á svart var Arnþór Gylfi Finnsson rekinn af velli nokkrum sek. síðar og heimamenn því orðnir tveimur færri. Valsmenn jöfnuðu þegar ein mínúta og 20 sekúndur voru eftir og allt virtist Þórsurum í mót en þá spýttu þeir í lófana; Kristján Páll Steinsson byrjaði á því að verja 13. skotið í leiknum og í næstu Þórssókn braust Aron Hólm Kristjánsson af harðfylgi í gegnum vörn gestanna og kom Þór yfir á ný. Brynjar Hólm Grétarsson var klókur þegar sex Valsmenn sóttu gegn fjórum varnarmönnum og fiskaði ruðning og það var hann sem gulltryggði sigurinn þegar 45 sekúndur voru eftir.

Mörk Þórs: Brynjar Hólm Grétarsson 6, Aron Hólm Kristjánsson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 3, Halldór Yngvi Jónsson 3, Halldór Kristinn Harðarson 3, Arnþór Gylfi Finnsson 3, Jón Ólafur Þorsteinsson 2, Hilmir Kristjánsson 1. Varin skot: Kristján Páll Steinsson 13, Tómas Ingi Gunnarsson 1.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina 

Brynjar Hólm Grétarsson skorar síðasta mark leiksins og innsiglar tveggja marka sigur Þórsara. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson