Fara í efni
Þór

Þórsarar bjóða upp á handbolta á Dalvík

Árni Rúnar Jóhannesson og Viðar Ernir Reimarsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Handknattleiksdeild Þórs og Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Dalvíkurbyggðar hafa gert með sér samning þess efnis að Þór haldi úti handboltaæfingum í íþróttahúsi bæjarins næsta vetur fyrir börn á Dalvík og nágrenni. 

Formaður handknattleiksdeildar Þórs, Árni Rúnar Jóhannesson segir afar kærkomið að þetta samstarf nái fram að ganga enda er hann uppalinn á Dalvík.

„Þegar ég var að alast upp á Dalvik þá var mikil íþróttamenning má segja og ég tel hana reyndar vera enn öflugri í dag en þá. UMFS hélt úti nokkuð öflugri körfuboltadeild þá en aðstaðan var nú frekar slök, þar sem gamla íþróttahúsið var eiginlega sýnishorn af sal. Núna er á Dalvík frábært íþróttahús og tilvalið að Þór komi og efli boltaíþróttir að vetri til á Dalvík,“ segir hann á Facebook síðu handboltadeildar Þórs.

Tenging við Dalvík

Árni Rúnar nefnir merkilega tengingu Þórsara við Dalvík. „Ég er þar uppalinn, Steinn Símonarson einn stjórnarmanna deildarinnar er það líka. Kristján Páll sonur hans spilar með meistaraflokki. Svo er annar leikmaður meistaraflokks, Viðar Ernir, líka hálfur Dalvíkingur en Reimar Viðarsson er pabbi hans og sá er heldur betur Dalvíkingur.“

Spurður um hugmyndina að samstarfinu svarar Árni Rúnar:

„Halldór [Tryggvason] yfirþjálfari yngri flokka félagsins og aðstoðarþjálfari meistaraflokks á heiðurinn að henni, hann fær þessa hugmynd held ég í sundi, eða amk fer hann eitthvað að hugsa hvort við gætum ekki prófað að bjóða uppá handbolta í nágrannasveitafélögum. Hann viðrar hana lauslega við mig og ég hugsaði strax Dalvík. Ég setti mig í samband við kunningja og meira að segja gamla skólasystur til að fá einhverja hugmynd hvernig best væri að ná tengingu á Dalvík.“

Árni Rúnar hafði í kjölfarið samband við Gísla Rúnar Gylfason íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og úr varð samkomulag.

Mjög ánægður

Stefnt er að því að byrja æfingar snemma í september, fyrst fyrir börn í 1. til 6. bekk. „En ef við skynjum áhuga hjá 7.-10. bekk þá er ekkert því til fyrirstöðu að bjóða þeim uppá æfingar. Vonandi náum við að manna lið til að keppa á íslandsmóti það væri algjörlega frábært. HSÍ er amk meðvitað um þessa tilraun okkar og eru boðnir og búnir til að aðstoða með eitthvað ef þarf. En svo líka hugmyndin sú að foreldrar þeirra barna sem munu æfa hjá okkur geti komið með krakkana sína á æfingar á Akureyri þegar Bónusferðin er farin eða þegar versla þarf skrúfur og nagla.“

Árni er spurður á Facebook síðunni: eitthvað hlýtur svona lagað að kosta ekki satt?

„Við ætlum ekki að velta því of mikið fyrir okkur í byrjun. Samkomulagið er einfalt fyrsta mánuðinn. Þá æfa allir frítt. Þór kemur með bolta og þjálfara, Dalvíkurbyggð veitir aðgang að íþróttahúsinu. Svo tökum við stöðuna eftir mánuð og sjáum hvort ekki sé grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi. Ég er amk mjög ánægður að handknattleiksdeild Þórs geti boðið uppá æfingar á Dalvik. Eins og ég sagði áðan að þá er ég þarna uppalinn og ber sterkar taugar til Dalvíkur þó maður sjáist þar skammarlega sjaldan núorðið ...“ segir Árni Rúnar Jóhannesson.