Fara í efni
Þór

Þórsarar áttu enga möguleika gegn FH

Halldór Yngvi Jónsson gerir eina mark sitt í kvöld; skoraði af öryggi framhjá Phil Döhler - sem gerði fjögur mörk í leiknum, yfir endilangan völlinn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar eru úr leik í Coca Cola bikarkeppninni í handbolta eftir stórt tap fyrir FH-ingum í átta liða úrslitunum í kvöld. Liðin mættust í íþróttahöllinni á Akureyri og Hafnfirðingarnir sigruðu 33:22 eftir að staðan í hálfleik var 15:11.

FH-ingar eru þar með komnir í undanúrslit og mæta Valsmönnum en í hinum undanúrslitaleiknum mætast KA og Selfoss.

Strax á upphafsmínútunum sýndi sig að FH-ingar, sem er í toppbaráttu efstu deildar, voru einhverjum númerum of stórir fyrir Þórsara, sem leika í næst efstu deild. Munurinn á liðunum kom raunar alls ekki á óvart.

FH-ingar náðu snemma þægilegri forystu og héldu Þórsurum í öruggri fjarlægð allt til enda. Þórsarar áttu á löngum köflum mjög erfitt með að brjóta vörn FH-inga á bak aftur, besta leiðin var oft að koma boltanum inn á línu og það varð til þess að gamla brýnið, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson, var markahæstur í Þórsliðinu með 8 mörk; hann hefur ekki skorað jafn mikið í mörg ár! Vörnin var góð á köflum og Arnar Þór Fylkisson varði vel, sérstaklega seinni hluta fyrri hálfleiks.

Mörk Þórs: Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 8, Heimir Pálsson 4, Viðar Ernir Reimarsson 3, Josip Kezic 3, Tomislav Jagurinovski 1, Garðar Már Jónsson 1, Halldór Yngvi Jónsson 1 og Jóhann Einarsson 1.