Fara í efni
Þór

Þórsarar aftur á sigurbraut – MYNDIR

Þórsarar fagna öðru marki Valdimars Daða Sævarssonar - og þriðja marki liðsins - í sigrinum á Gróttu í kvöld. Markaskorarinn er númer 16, annar frá hægri. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór vann langþráðan 3:1 sigur á Gróttu á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) í kvöld í Lengjudeildinni, næstu efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn var hluti 10. umferðar deildarinnar, en honum var frestað vegna þátttöku U19 ára landsliðsins í lokamóti Evrópukeppninnar fyrr í þessum mánuði. Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði fyrsta markið og Valdimar Daði Sævarsson hin tvö. Þetta var fyrsti sigur Þórsliðsins í deildinni síðan 16. júní.

Eftir leikinn er Þórsliðið með 17 stig og er sem stendur í sjötta sæti deildarinnar, einu sæti frá umspils sæti. Deildin er gríðarlega jöfn og því þarf ekki mikið að gerast til að liðið færist um set í töflunni. Næsti leikur liðsins er á laugardaginn kemur gegn Leikni Reykjavík.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum

_ _ _

GOTT FÆRI GRÓTTUMANNA EN ARON BJARGAR VEL

Það voru aðeins tvær mínútur liðnar þegar fyrsta færið leit dagsins ljós. Kristján Atli Marteinsson missti boltann klaufalega á miðjunni og gestirnir keyrðu upp í hraða sókn. Eftir smá klafs barst boltinn á Arnþór Pál Hafsteinsson sem átti viðstöðulaust skot við vítapunktinn. Aron Birkir Stefánsson gerði þá frábærlega í að blaka boltanum yfir markið og koma í veg fyrir mark.

_ _ _

TÓMAS JOHANNESSEN VILL VÍTI EN FÆR SPJALD

Upp úr vörslu Arons fengu Gróttumenn hornspyrnu. Boltinn barst inn í teiginn þar sem hinn ungi Tómas Johannessen fékk boltann. Hann féll við eftir baráttu við Bjarka Þór Viðarsson. Dómari leiksins Twana Khalid Ahmed spjaldaði Tómas þá fyrir leikaraskap en Chris Brazell þjálfari Gróttumanna var allt annað en sáttur við dóminn og kvartaði mikið. „Strákar við erum komnir hingað til þess að horfa á dómarann,“ kallaði hann inn á völlinn. 

_ _ _

1:0 - BJARNI GUÐJÓN KEMUR ÞÓRSURUM YFIR

Á 31. mínútu leiksins kom fyrsta markið. Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði það. Boltinn barst á milli manna fyrir utan teig og brotið var á Fannari Daða en dómari leiksins gerði vel í að beita hagnaði. Þá tók Bjarni boltann og prjónaði sig frábærlega í gegnum vörn Gróttu. Bjarni var skyndilega kominn inn í teiginn en var við það að missa boltann frá sér. Þá kom Aron Bjarki Jósepsson miðvörður Gróttumanna og þrumaði boltanum í Bjarna og þaðan hrökk hann í netið. Skrautlegt mark en spretturinn frá Bjarna var frábær.
 
 
 

_ _ _

KRISTJÁN ATLI MEÐ SKOT RÉTT FRAM HJÁ MARKINU

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks fengu heimamenn hornspyrnu. Fannar Daði átti þá fína sendingu inn á teig sem var skölluð frá markinu. Boltinn barst þá út á Kristján Atla Marteinsson sem var við vítateigs hornið. Hann átti gott skot sem sigldi rétt fram hjá markinu. Það mátti ekki miklu muna að boltinn hafi endað í netinu en Rafal Daníelsson, markmaður Gróttu stóð límdur á línunni og horfði á boltann fara fram hjá.

_ _ _

2:0 - VALDIMAR TVÖFALDAR FORYSTUNA Í UPPHAFI SEINNI HÁLFLEIKS

Seinni hálfleikur byrjaði vel fyrir Þórsara en á 48. mínútu skoraði Valdimar Daði Sævarsson annað mark liðsins. Elmar Þór Jónsson átti þá langa sendingu fram völlinn. Alexander Már fór þá í kapphlaup við Aron Bjarka sem endaði með því að Aron Bjarki rann. Þá var Valdimar mættur á sprettinum, náði  boltanum, keyrði inn í teiginn og renndi fram hjá Rafal í markinu. Valdimar er eldsnöggur og nýtti sér það vel í þessu marki.

_ _ _

MARC SÖRENSEN MEÐ SKOT YFIR MARKIÐ

Marc Rochester Sörensen sem hefur leikið vel fyrir Þórsliðið á þessari leiktíð kom aftur inn í byrjunarliðið í dag eftir að hafa misst af seinasta leik vegna meiðsla. Hann fékk fínt skotfæri á 54. mínútu eftir sendingu frá Fannari Daða. Marc fékk boltann fyrir utan vítateigsbogann en skotið sigldi yfir markið.

_ _ _

BJARNI GUÐJÓN NÁLÆGT ÞVÍ AÐ BÆTA VIÐ ÖÐRU MARKI SÍNU

Á 62. mínútu voru Þórsarar nálægt því að komast í þriggja marka forystu. Heimamenn unnu þá boltann framarlega á vellinum og Bjarni Guðjón átti þá enn og aftur góðan sprett í gegn um vörn Gróttu. Hann komst einn gegn Rafal en skot Bjarna fór beint á hann. 

_ _ _

ARON BIRKIR MEÐ FRÁBÆRA MARKVÖRSLU AFTUR

Gestirnir voru nálægt því að minnka muninn á 67. mínútu en enn og aftur var Aron Birkir Stefánsson vel á verði. Gróttumenn voru hættulegir í löngum innköstum í kvöld og eftir eitt slíkt náði Kristófer Orri Pétursson góðum skalla sem Aron gerði vel í að blaka yfir markið.

_ _ _

3:0 - VALDIMAR DAÐI BÆTIR VIÐ ÖÐRU MARKI SÍNU

Heimamenn komust í 3:0 forystu á 74. mínútu leiksins og aftur var það Valdimar sem gerði markið. Alexander Már Þorláksson gerði þá frábærlega í að halda varnarmanni gestanna frá sér og náði að senda hælsendingu í gegnum vörn Gróttu. Þar kom Valdimar á ferðinni og var sloppinn í gegn. Hann keyrði inn í teig og vippaði boltanum frábærlega yfir Rafal í markinu. Staðan orðin 3:0 og fögnuðurinn á Þórsvelli mikill.

_ _ _

3:1 - ARON BJARKI MINNKAR MUNINN FYRIR GRÓTTU

Gestirnir náðu að minnka muninn á 84. mínútu leiksins. Húsvíkingurinn Aron Bjarki Jósepsson gerði markið. Eftir langt innkast barst boltinn aftur út á Patrik Orra Pétursson á vinstri kantinum. Hann átti góða sendingu inn í teiginn þar sem Aron Bjarki náði að koma sér fram fyrir Akseli Kalermo og skalla boltann í netið af markteignum. Lengra komust gestirnir ekki og lokatölur 3:1