Fara í efni
Þór

Þórsarar áfram í bikarkeppninni

Alvaro Montejo, lengst til hægri, fagnar sigurmarkinu ásamt Vigni Snæ Stefánssyni, Jakob Snæ Árnasyni og Birgi Ómari Hlynssyni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar eru komnir í 16-liða úrslit Mjólkurbikarkeppninnar í knattspyrnu eftir 2:1 sigur á Grindavík á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum) í kvöld. Alvaro Montejo  kvaddi heimavöllinn með viðeigandi hætti; þessi mikli markaskorari gerði sigurmarkið í síðasta heimaleiknum með Þórsliðinu. Hann heldur til Spánar eftir útileik gegn Fjölni í deildinni um næstu helgi.

Alvaro kom inn á sem varamaður á 56. mínútu og skoraði aðeins tveimur mínútum síðar. Kom Þór í 2:0 eftir að Maciej Majewski varði skot Sölva Sverrissonar og boltinn hrökk út í teig til Alvaros. Það var Jakob Snær Árnason sem gerði fyrra markið strax á fimmtu mínútu eftir flottan undirbúning Ásgeirs Marinós Baldvinssonar.

Mirza Hasecic minnkaði muninn fyrir gestina á 77. mínútu, þeir sóttu af krafti undir lokin en Þórsarar vörðust vel og fögnuðu sæti í næstu umferð.

Sigurinn var kærkominn eftir heldur brösugt gengi Þórsara í deildinni undanfarið. Vonandi blæs hann þeim von í brjóst.

Orri Hjaltalín, þjálfari Þórs, gerði fimm breytingar á liðinu frá síðasta deildarleik, 1:0 tapi fyrir Kórdrengjum á heimavelli á föstudaginn á Íslandsmótinu. Auðunn Ingi Valtýsson stóð í markinu og þeir Birgir Ómar Hlynsson, Jakob Snær Árnason, Ásgeir Marinó Baldvinsson og Sölvi Sverrisson komu líka inn í liðið.

  • Auðunn Ingi Valtýsson markvörður er aðeins 18 ára. Þetta var fyrsti heili „alvöru“ leikur hans með meistaraflokki Þórs.
  • Auðunn Ingi tók þátt í einum leik á Íslandsmótinu í fyrrasumar, kom þá inn á eftir 27 mínútur þegar Aron Birkir Stefánsson fór meiddur af velli í 3:2 sigurleik gegn Leikni frá Fáskrúðsfirði í Fjarðarbyggðahöllinni. Auðunn hefur staðið í marki Þórs í deildarbikarkeppninni og öðrum vetrarmótum, en aðeins þessum tveimur „alvöru“ leikjum sem nefndir voru.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

Grindvíkingurinn Laurens Symons skýtur að marki undir lokin en Jóhann Helgi Hannesson var vel á verði við stöngina og skallaði boltann í burtu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ásgeir Marinó Baldvinsson gæti verið að minna Orra Hjaltalín þjálfara á frábæran sprett upp kantinn, þegar Ásgeir lagði upp fyrra mark Þórs fyrir Jakob Snæ Árnason, sem er á milli þeirra Orra! Ólafur Aron Pétursson til hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Auðunn Ingi Valtýsson, markvörður Þórs, og Sveinn Elías Jónsson, aðstoðarþjálfari, þakka áhorfendum stuðninginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.