Fara í efni
Þór

Þór/KA - Valur í dag: „Ekki svekktur lengur“

Þórsvöllurinn (SalPay völlurinn) í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tekur á móti Íslandsmeisturum Vals í dag í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn verður í Boganum og hefst klukkan 18.00.

Ákveðið var fyrir skömmu að leikurinn yrði innandyra, svo og fyrsti leikur karlaliðs Þórs, gegn Kórdrengjum á föstudaginn. Keppnisvöllur Þórs, SaltPay völlurinn, er ekki orðinn það góður að bæði sé hægt að æfa á honum og keppa, að sögn Þórsara.

„Var svekktur yfir að spila ekki leikinn í kvöld úti. Er ekki svekktur lengur,“ skrifaði Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara Þórs/KA, í morgun á Twitter og birti mynd af snævi þöktum vellinum. 

Þór/KA tapaði í fyrstu umferð, 4:1, fyrir Breiðabliki í Kópavogi en Valsmenn unnu Þróttara 2:0. Arna Sif Ásgrímsdóttir gerði fyrra mark Vals en hún gekk í raðir Valsara í vetur frá Þór/KA og mætir því sínum gömlu félögum í dag.