Fara í efni
Þór

Þór/KA tekur á móti FH í Bestu deildinni

Sandra María Jessen fagnar einu eftirminnlegasta marki Þórs/KA gegn FH; fyrra markinu í 2:0 sigri í lokaumferð Íslandsmótsins haustið 2017 sem getið er í greininni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA fær FH í heimsókn á Þórsvöllinn í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu. Leikurinn er í 6. umferð deildarinnar og hefst klukkan 18.30.

Á vef Þórs/KA er bent á þá skemmtilegu staðreynd að þetta sé þriðji heimaleikur liðsins á þremur völlum það sem af er móti! Fyrst tapaði Þór/KA fyrir Keflavík á Greifavelli KA og vann síðan Breiðablik í Boganum. 

Andstæðingarnir í dag hafa mæst 20 sinnum í efstu deild og Þór/KA oftast haft betur, unnið 15 leiki, þrisvar hefur orðið jafntefli og tvisvar hefur FH sigrað, að því er segir á vef Þórs/KA.

Þar segir einnig:

Markatalan er Þór/KA einnig mjög í hag þar sem liðið hefur þrisvar unnið með sex marka mun eða meira. Eftirminnilegasta viðureign þessara liða er mögulega haustið 2017 þegar Þór/KA þurfti sigur til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Sá sigur kom að lokum, en mörkin tvö í 2-0 sigri létu þó bíða eftir sér þar til á 74. og 78. mínútu. Sandra María Jessen skoraði einmitt fyrra markið við mikinn fögnuð í troðfullri stúkunni á Þórsvellinum.

Heimasíða Þórs/KA