Fara í efni
Þór

Þór/KA tapaði gegn ÍBV á Þórsvelli

Agnes Birta Stefánsdóttir og Holly Taylor Oneill í baráttu um boltann í dag. Sú síðarnefnda gerði seinna mark ÍBV í leiknum. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 2:0 gegn ÍBV á Þórsvelli í 12. umferð Bestu deildar kvenna í dag og liðinu mistókst því að endurheimta þriðja sætið í deildinni. Leikurinn fór fram í frábæru veðri á Þórsvelli Bæði mörk ÍBV komu snemma í seinni hálfleiknum.

Þór/KA liðið var án allra erlendu leikmanna sinna í leiknum í dag. Tahnai Anis og Dominique Randle eru farnar í landsliðsverkefni en þær spila fyrir lið Filippseyja á HM kvenna sem hefst nú á næstu dögum. Melissa Lowder, markmaður liðsins fékk leyfi frá Þór/KA að fara í landsliðsverkefni í strandfótbolta en Melissa hefur spilað fyrir landslið Bandaríkjanna í þeirri íþrótt. Harpa Jóhannsdóttir kom í markið í hennar stað. 

Amalía Árnadóttir í ágætu færi eftir rúmlega korter en Guðný í marki ÍBV varði. 

Gestirnir úr Vestmannaeyjum byrjuðu leikinn betur og fengu færi til að komast yfir í upphafi leiks. En eftir því sem leið á leikinn unnu heimakonur sig inn í leikinn og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. 

ÍBV fékk þó lang besta færi fyrri hálfleiksins á 34. mínútu. Eftir skyndisókn gestanna keyrði Olga Sevcova upp hægri kantinn, hún átti sendingu fyrir þar sem Holly Oneill var alein inn í markteignum. Hún náði þó á einhvern hátt að stýra boltanum fram hjá markinu. Hulda Björg Hannesdóttir komst næst því að skora fyrir Þór/KA á 41. mínútu þegar hún átti fastan skalla eftir hornspyrnu. Guðný Geirsdóttir gerði frábærlega í að verja skallann. Staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Holly Oneill, númer 10, í dauðafæri við mark Þórs/KA eftir rúman hálftíma en skaut fram hjá.

Það voru aðeins 45 sekúndur liðnar af seinni hálfleiknum þegar fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Viktorija Zaicikova keyrði þá upp hægri kantinn og átti sendingu inn í teiginn. Þar var Olga Sevcova mætt á ferðinni inn í markteiginn á fjærstönginni, renndi boltanum í netið og staðan orðin 1:0 fyrir ÍBV. Slæmur varnarleikur hjá heimakonum þarna en bæði Holly og Olga voru dauðafríar inn í teig.

Á 64. mínútu leiksins tvöfaldaði Holly Oneill forystu gestanna. Agnes Birta átti þá misheppnaða sendingu úr vörninni sem var hátt upp á vellinum. Viktorija Zaicikova náði boltanum og sendi boltann inn fyrir á Holly Oneill sem slapp í gegn. Hún keyrði upp völlinn, gaf sér góðann tíma en renndi boltanum að lokum fram hjá Hörpu í markinu. Einhverjir stuðningsmenn Þórs/KA vildu fá rangstöðu dæmda þegar sendingin kom en við endursýningu sést að Holly var réttstæð og dómurinn því hárréttur.

Eftir seinna mark leiksins var mjög rólegt yfir leiknum og hvorugu liðinu tókst að skapa sér mörg opin færi. Lokatölur á Þórsvelli 2:0 fyrir ÍBV. Þetta var þriðja tap Þórs/KA liðsins á heimavelli í sumar en liðið hefur einnig unnið þrjá heimaleiki og gert eitt jafntefli.

Eftir leikinn er Þór/KA liðið í fimmta sæti deildarinnar með 19 stig, einu stigi á eftir FH. Næsti leikur liðsins er ekki fyrr en 29. júlí en þá mætir liðið Þrótti.

Smelltu hér til að skoða leikskýrsluna úr leiknum.

_ _ _

BRÍET, BRÍET OG BRÍET

Á varmannabekk Þórs/KA í dag voru þrír leikmenn sem heita Bríet eða um 43% af bekknum. Tvær þeirra, Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Bríet Kolbrún Hinriksdóttir voru í fyrsta skipti í hóp í deildarkeppni hjá Þór/KA. Bríet Fjóla er gríðarlega efnilegur leikmaður en hún einungis 13 ára gömul, fædd árið 2010. Bríet Kolbrún leikur sem markmaður og var hún varamarkmaður í dag fyrir Hörpu Jóhannsdóttur, hún er fædd árið 2009. Bríet Jóhannsdóttir er fædd árið 2006 og hefur komið við sögu í tveimur leikjum í sumar, gegn Tindastól og Stjörnunni á heimavelli. Bríet Jóhannsdóttir kom inn á undir lok leiks í dag og Bríet Fjóla átti að koma inn á í viðbótartíma, en lokaflaut dómarans gall áður en til þess kom.

Frá vinstri: Bríet Fjóla Bjarnadóttir, Bríet Kolbrún Hinriksdóttir varamarkmaður og Bríet Jóhannsdóttir. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson