Fara í efni
Þór

Þór/KA tapaði fyrir Blikum í Kópavogi

Sandra María Jessen gerði fyrsta mark leiksins í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 4:2 fyrir Breiðabliki í Kópavogi í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Með sigrinum skutust Blikar á toppinn en Þór/KA er áfram í fjórða sæti.

Sandra María Jessen kom Þór/KA í 1:0 strax á 12. mínútu eftir frábæran undirbúning Amalíu Árnadóttur og Huldu Óskar Jónsdóttur. Þetta var sjötta mark Söndru í deildinni í sumar og það fyrsta eftir að hún sneri í baráttuna á nýjan leik eftir sex vikna fjarveru vegna handleggsbrots.

Það var ekki fyrr en á 63. mín. að Breiðablik jafnaði. Linli Tu skallaði í netið eftir fyrirgjöf og fáeinum mín. síðar skoraði hún aftur með skoti af stuttu færi.

Bríet Jóhannsdóttir kom inná í stað Steingerðar Snorradóttur á 78. mínútu og var búin að skora aðeins einni mínútu síðar eftir snögga sókn. Sandra María Jessen fékk boltann fram vinstri kantinn, sendi inn á teig á Bríeti – sem fékk þá boltann í fyrsta sinni í leiknum – og hún skoraði af mikilli yfirvegun. Mjög laglega gert hjá þessari 17 ára, bráðefnilegu stúlku sem skoraði þarna í fyrsta sinn í Bestu deildinni en hún hefur komið við sögu í sex leikjum í sumar.

Skömmu eftir markið gerði Katrín Ásbjörnsdóttir þriðja mark Blika og Birta Georgsdóttir það fjórða í blálokin. Stelpurnar okkar urðu þar með að játa sig sigraðar. Þær léku að mörgu leyti vel í dag en varnarleikurinn var ekki til útflutnings að þessu sinni og því fór sem fór.
 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna