Fara í efni
Þór

Þór/KA sigraði meistarana – MYNDIR

Eins og klettar! Harpa Jóhannesdóttir var frábær í marki Þórs/KA í gær. Varði hvað eftir annað á ótrúlegan hátt. Hulda Björg Hannesdóttir, fyrirliði liðsins, sem þarna er til hægri, spilaði líka mjög vel. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA vann ótrúlegan sigur, 2:1, á Íslandsmeisturum Vals í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, í Boganum í gærkvöld.i eins og Akureyri.net greindi frá.

Hér eru nokkrar myndir úr leiknum.
_ _ _

100 leikir Fyrir leikinn fékk Margrét Árnadóttir afhenta skemmtilegan Þórs/KA bol í tilefni þess að hún náði nýlega þeim áfanga að spila 100. leikinn fyrir meistaraflokk. Það var Guðrún Una Jónsdóttir, einn stjórnarmanna í Þór/KA sem afhenti gjöfina, en svo skemmtilega vill til að hún er móðir Margrétar.

  • Miðað við núverandi uppsetningu á tölfræði leikja í gagnagrunni KSÍ og breytingu sem gerð var nýlega er Margrét komin í 112 leiki í deild, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni og Evrópukeppni.
  • Breytingin sem hefur orðið er að leikir í Lengjubikarnum eru komnir inn í töluna. Út frá þeirri tölfræði var 100. leikur Margrétar gegn Val á heimavelli þann 24. júlí í fyrra.

_ _ _

1:0 Þór/KA skoraði strax á 6. mínútu. Þar var Sandra María Jessen að verki. Tiffany Janea McCarty náði boltanum af leikmanni Vals úti á velli, lék í átt að vítateignum og sendi hárnákvæmt á Söndru Maríu sem komst ein á móti nöfnu sinni, markverði Vals, og skoraði örugglega framhjá henni.

  • Þetta var fyrsta mark Söndru Maríu á Íslandsmótinu síðan 17. september 2018. Eftir það hélt hún utan í atvinnumennsku en kom aftur heim í vetur.
  • Markið 2018 skoraði hún einnig gegn Val, í 4:1 sigri Þórs/KA á Þórsvellinum í næstu síðustu umferð. Sandra Sigurðardóttir stóð þá einnig í Valsmarkinu. Arna Sif Ásgrímsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir, sem nú eru með Val, voru í liði Þórs/KA, svo og Andrea Mist Pálsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir og Margrét Árnadóttir, sem allar spiluðu í gær. Arna Sif gerði eitt marka Þórs/KA í leiknum.

_ _ _

Fimm spor Arna Sif Ásgrímsdóttir, leikmaður Vals, og Andrea Mist Pálsdóttir, skullu harkalega saman í baráttu um boltann þegar rúmar 10 mínútur voru búnar af leiknum. Báðar lágu um stund á meðan hugað var að þeim, Arna Sif gat haldið áfram leik en Andrea fór af velli og á sjúkrahús. „Það ætlaði aldrei að hætta að blæða,“ sagði hún við Akureyri.net, komin aftur í Bogann fyrir leikslok. Leikurinn tafðist í smá stund meðan blóð var hreinsað af vellinum eftir samstuðið og sauma þurfti fimm spor í höfuð Andreu.

Ég þarf aðeins að skreppa! Andrea Mist á leið úr Boganum til þess að fara á sjúkrahúsið og undir „saumavélina“.

_ _ _

1:1 Eftir þunga sókn jafnaði Elín Metta Jensen fyrir Val á 64. mín. Hún náði valdi á boltanum umkringd varnarmönnum í miðjun teignum, náði að snúa og skjóta, boltinn hafði viðkomu í varnarmanni og Harpa markmaður kom engum vörnum við.

_ _ _

2:1 Þór/KA komst óvænt yfir á ný á 75. mín. þegar Margrét Árnadóttir gerði laglegt mark af harðfylgi. Aftur var það Tiffany Janea McCarty sem átti síðustu sendinguna; spyrnti boltanum inn fyrir vörn Vals, Margrét  slapp í gegn, Sandra varði frá henni en Margrét var fljótust að átta sig, náði boltanum aftur, var komin hægra megin en skoraði með föstu skoti áður en varnarmenn komust fyrir boltann. Vel gert!

_ _ _

„Smá“ stress Þjálfarar Þórs/KA, Jón Stefán Jónsson og Perry Mclachlan, voru augljóslega mjög spenntir og skyldi engan undra. Lið þeirra þurfti að verjast þungum sóknarlotum Íslandsmeistaranna en tókst að sigra. 

Jón Stefán þungt hugsi á meðan skipting á sér stað við miðlíuna.

Það fer Perry Mclachlan ekki illa að vera með stert! Rétt er þó að taka fram að Iðunn Elfa Bolladóttir, sjúkraþjálfari, stendur við hlið hans ...

_ _ _

Sigurgleði Leikmenn og stuðningsmenn Þórs/KA voru skiljanlega glaðir að leikslokum.