Fara í efni
Þór

Þór/KA sækir Stjörnuna heim í Bestu deildinni

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA og Ella Ylví Küster dóttir hennar á kynningarkvöldi Þórs/KA sem fram fór í Hamri á mánudagskvöldið. Ella Ylví er eins og hálfs árs, fæddist í september 2021. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Lið Þórs/KA hefur leik í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í dag. Andstæðingurinn er Stjarnan, viðureign liðanna verður í Garðabæ og hefst klukkan 18.00. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Spennandi verður að sjá hvernig Þór/KA mætir til leiks. Liðinu hefur gengið vel á undirbúningstímabilinu og komst í úrslit Lengjubikarkeppninnar; tapaði úrslitaleiknum gegn andstæðingi dagsins á sama velli eftir vítaspyrnukeppni.

Byrjunarliðið í dag hefur verið tilkynnt og athygli vekur að Melissa Lowder, sem kom frá Bandaríkjunum, stendur í markinu en Harpa Jóhannsdóttir, aðalmarkvörður siðustu ár, er á varamannabekknum.

_ _ _

  • KOMNAR TIL ÞÓRS/KA
    Dominique Randle
    Karen María Sigurgeirsdóttir að láni frá Breiðabliki
    Melissa Anne Lowder frá Bandaríkjunum
    Tahnai Annis
  • FARNAR SÍÐAN Í FYRRA
    Andrea Mist Pálsdóttir í Stjörnuna
    Arna Eiríksdóttir í Val (var í láni)
    Margrét Árnadóttir til Parma
    María Catharina Ólafsdóttir Gros til Fortuna Sittard
    Sara Mjöll Jóhannsdóttir í HK
    Tiffany McCarty
    _ _ _

Byrunarlið Þórs/KA í dag er þannig skipað: Melissa Lowder (M), Dominique Jaylin Randle, Steingerður Snorradóttir, Tahnai Lauren Annis, Karen María Sigurgeirsdóttir, Sandra María Jessen, Hulda Ósk Jónsdóttir, Jakobína Hjörvarsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Ísfold Marý Sig­tryggs­dótt­ir, Kimberley Dóra Hjálm­ars­dótt­ir.

Varamenn: Harpa Jóhannsdóttir (M), Karlotta Björk Andradóttir, Emelía Ósk Kruger, Kolfinna Eik Elínardóttir, Amalía Árnadóttir, Krista Dís Kristinsdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir.

Tveir fyrrverandi leikmenn Þórs/KA eru í byrjunarliði Stjörnunnar í dag: Andrea Mist Pálsdóttir og Heiða Ragney Viðarsdóttir.

Gott hljóð var í Jóhanni Kristni Gunnarssyni, þjálfara Þórs/KA, í viðtali sem birtist á Akureyri.net í gær. Þar var rifjað upp að nánast allir í leikmannahópi liðsins eru uppaldir hjá Þór eða KA. „Þetta er góður vitnisburður um kvennastarfið í fótboltanum á Akureyri,“ sagði þjálfarinn og bætti við að efniviðurinn í bænum væri afar mikill. Margar stelpurnar væru enn mjög ungar en öflugar engu að síður.

Smellið hér til að sjá viðtalið við Jóhann Kristin