Fara í efni
Þór

Þór/KA í undanúrslit eftir stórsigur

Sandra María Jessen gerði þrjú mörk í dag og hefur þar með gert 11 mörk alls í Lengjubikarkeppninni í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum Lengjubikarkeppninnar í knattspyrnu með stórsigri á liði Selfoss í Boganum. Lokatölur urðu 7:2.

Stelpurnar okkar mæta Breiðabliki í undanúrslitum næstkomandi fimmtudag í Kópavogi en Þróttur og Stjarnan mætast um næstu helgi. Sigurliðin mætast svo í úrslitaleik laugardaginn 1. apríl.

Selfyssingar voru betri framan af leik í dag og Katla María Þórðardóttir kom þeim yfir en Tahnai Annis jafnaði skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Það var fyrsta mark hennar fyrir Þór/KA síðan 2014. Hún lék þá með liðinu við frábæran orðstír og sneri aftur í vetur.

Staðan var sem sagt 1:1 í hálfleik en svo brustu flóðgáttirnar í þeim seinni; Þór/KA gerði sex mörk og gjörsigraði gestina. Sandra María Jessen  skoraði þrívegis, Agnes Birta Stefánsdóttir og Emelía Ósk Krüger gerðu sitt markið hvor og eitt var sjálfsmark sem Amalía Árnadóttir átti stóran þátt í. Selfyssingar minnkuðu svo muninn niður í fimm mörk í blálokin.

Gaman er að geta þess að Sandra María Jessen gerði 11 mörk í fimm leikjum í riðlakeppninni, þar af þrjár þrennur! Til gamans má nefna að markahæsti leikmaður Bestu deildar kvenna, efstu deildar á Íslandsmótsins, á síðasta ári gerði 11 mörk.

Þróttur sigraði í okkar riðli með 15 stig, Þór/KA fékk 12 og Valur varð í þriðja sæti með níu. Breiðablik og Stjarnan fengu bæði 13 stig í hinum riðlinum, þau skildu jöfn en Blikar luku keppni með mun betri markatölu.
 
Til stóð að báðir undanúrslitaleikirnir færu fram næsta laugardag en strax eftir að leikjum dagsins lauk var tilkynnt að Þór/KA og Breiðablik þurfa að eigast við á fimmtudaginn; lið Breiðabliks er á leið úr landi í æfingaferð á föstudaginn og leikurinn var því færður fram um tvo daga. Hann verður á Kópavogsvelli næsta fimmtudag klukkan 17.30 skv. heimasíðu KSÍ.
 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna