Fara í efni
Þór

Þór/KA gerði aðeins jafntefli við KR

Rebekka Sverrisdóttir, fyrirliði KR, og Tiffany Janea McCarty berjast um boltann í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA gerði jafntefli, 3:3, gegn KR í gærkvöldi í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins. Stelpurnar okkar í Þór/KA eru þar með komnar með 10 stig eftir níu leiki, en KR komst upp úr botnsætinu; er með 4 stig að loknum níu leikjum.

Fyrri hálfleikurinn var afar slakur hjá Þór/KA. Lið KR, sem hefur gengið afleitlega í sumar, komst í 1:0 strax á upphafsmínútunum með marki eftir skemmtilega útfærða hornspyrnu. Það var Hildur Lilja Ágústsdóttir sem skoraði, Sandra María Jessen jafnaði eftir hálftíma leik en Guðmunda Brynja Ólafsdóttir kom gestuunum yfir á ný skömmu síðar eftir slæm mistök í vörn Þórs/KA.

Eftir afar slakan fyrri hálfleik var allt annað sjá til leikmanna Þórs/KA í þeim seinni. Arna Eiríksdóttir jafnaði á 54. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu Andreu Mistar Pálsdóttur, sem lék mjög vel í seinni hálfleik og Andrea var aftur á ferðinni á 65. mín. þegar hún átti frábæra fyrirgjöf á Margréti Árnadóttur sem skallaði laglega í netið.

Ekki fór þó svo vel að heimaliðið nældi í öll stigin þrjú því KR fékk víti á 81. mínútu og Rasamee Phonsongkham skoraði af öryggi.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna