Fara í efni
Þór

Þór/KA - Breiðablik í dag – styrkur afhentur

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, skoraði í báðum leikjunum gegn Breiðabliki í hefðbundinni deildarkeppni í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA fær Breiðablik í heimsókn í dag í annarri umferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Leikur liðanna á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) hefst klukkan 16.45.

Valur er á toppi deildarinnar með 45 stig og allar líkur á að liðið varði Íslandsmeistari. Breiðablik er í öðru sæti með 34 stig en Þór/KA í sjötta sæti með 26 stig.

Þór/KA vann fyrr leikinn gegn Breiðabliki í hinni hefðbundu deildarkeppni í sumar, 2:0 í Boganum 15. maí en Blikarnir unnu þann seinni á heimavelli sínum, 4:2.

Fyrir leik í dag gefst áhorfendum kostur á að setja nafn sitt í pott og verður dregið um veglega vinninga í leikhléinu. Tilefnið er að í leikhléi verður afhentur styrkur til kvennaráðs Þórs/KA úr minningarsjóði Guðmundar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi formanns Þórs. Það eru synir Guðmundar, þeir Bjarni Freyr og Einar Már sem afhenda munu styrkinn.

Sjá nánar hér í frétt Akureyri.net í gær.

Vert er að geta þess að á vef Þórs/KA kemur fram að á leiknum verði tekið við frjálsum framlögum til þess að styðja við fjölskyldu Violeta Mitul, leikmanns kvennaliðs Einherja á Vopnafirði, sem lést af slysförum á dögunum.

Á vef Þórs/KA segir: „Það vill svo til að leikmenn frá Vopnafirði sem stundað hafa nám við framhaldsskólana á Akureyri hafa iðulega æft með okkar hópum í Boganum á veturna. Okkur er því bæði ljúft og skylt að styðja við söfnun fyrir fjölskyldu leikmannsins. 

Fyrir leik okkar gegn Breiðabliki miðvikudaginn 13. september tökum við á móti frjálsum framlögum við innganginn fyrir leik og í sjoppunni á meðan á leik stendur, sem rennur í söfnunarsjóð Einherja fyrir fjölskyldu leikmannsins.

Einnig hvetjum við okkar fólk til að leggja fjölskyldunni lið með beinni millifærslu á söfnunarreikning Einherja.“

Söfnunarreikningur fyrir fjölskyldu Violeta Mitul:

Kennitala – 610678-0259
Bankanúmer – 0178-05-000594