Þór
Þór/KA á heimavelli, Þórsarar á Ísafirði
28.05.2022 kl. 06:00
Nikola Kristinn Stojanovic og Sandra María Jessen verða væntanlega bæði í eldlínunni í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Þór/KA tekur á móti liði Hauka í Mjólkurbikarkeppni kvenna í knattspyrnu í dag. Leikurinn verður á Þórsvellinum (SaltPay-vellinum) og hefst klukkan 14.00. Á sama tíma verður flautað til leiks Þórs og Vestra í Lengjudeild karla, næstu efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, á Ísafirði.
Bæði liðin urðu að kyngja erfiðu tapi í síðasta leik; Stelpurnar okkar í Þór/KA lutu í lægra haldi fyrir ÍBV í Eyjum í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, 5:4, eftir að hafa komist í 3:0, og Þórsarar voru slegnir út úr bikarkeppninni þegar þeir töpuðu 2:0 fyrir Dalvík/Reyni á Dalvíkurvelli.
- Lið Hauka er í þriðja neðsta sæti í Lengjudeild kvenna, næst efstu deild Íslandsmótsins, eftir fjóra leiki, hefur unnið einn leik og tapað þremur.
- Þór og Vestri eru báðir með fjögur stig eftir þrjá leiki í Lengjudeild karla; hvort lið hefur unnið einn leik, gert eitt jafntefli og tapað einum.