Fara í efni
Þór

Þór og KA spila bæði á heimavelli í kvöld

KA-mennirnir Sigþór Gunnar Jónsson, t.v., og Árni Bragi Eyjólfsson, stöðva Þórsarann Igor Kopyshynskyi í bikarleik félaganna á dögunum. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Handboltaveisla er framundan á Akureyri. Tveir leikir eru á dagskrá í kvöld, því bæði Þór og KA eiga heimaleik á Íslandsmótinu, Olísdeildinni, og á sunnudaginn mætast Akureyrarliðin í deildinni. Áhorfendur eru ekki leyfðir á íþróttaleikjum frekar en undanfarið en leikirnir verða allir í beinni útsendingu.

Þór - Stjarnan klukkan 18.30 í Höllinni

  • Þór sigraði Gróttu í síðasta leik, 18:17, á sunnudaginn en Stjörnumenn gerðu sér lítið fyrir og burstuðu Valsara að Hlíðarenda, 35:27, á mánudagskvöldið.
  • Með Stjörnunni leika nú bæði Þórsarinn Brynjar Hólm Grétarsson og KA-maðurinn Dagur Gautason. Þórsarinn Hafþór Vignisson er einnig á mála hjá Garðarbæjarliðinu en er meiddur
  • Aðalsteinn Ernir Bergþórsson, varnarjaxl í Þór, hlaut útilokun vegna grófs brots í leik Þórs og Gróttu. Niðurstaða aganefndar var „að ekki skuli aðhafst frekar.“ Aðalsteinn getur því leikið með í kvöld.
  • Þór er með fjögur stig í deildinni en Stjarnan níu. Bæði lið hafa lokið níu leikjum.
  • Leikurinn verður sýndur beint á Þór TV. Smellið hér til að horfa.

KA - Valur klukkan 19.30 í KA-heimilinu

  • KA-menn sigruðu ÍBV í Eyjum í miklum spennuleik á mánudagskvöldið, 29:28, þar sem úrslit réðust á lokasekúndunum með marki Patreks Stefánssonar. Valsmenn steinlágu hins vegar fyrir Stjörnunni á heimavelli, eins og fram kom að ofan.
  • Valsarar eru með 10 stig í deildinni eftir 9 leiki en KA-menn geta komist upp fyrir gesti sína með sigri í kvöld; KA er með níu stig og hefur þó aðeins lokið átta leikjum.
  • Leikurinn verður sýndur beint á KA TV. Smellið hér til að horfa.

Á sunnudaginn mætast svo Þór og KA í Olísdeildinni. Það er heimaleikur Þórs og því leikið í íþróttahöllinni. Leikurinn hefst klukkan 16.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þetta verður fyrri viðureign liðanna í deildinni, sú síðari verður í lokaumferðinni, sunnudagskvöldið 25. apríl í KA-heimilinu. Þór og KA mættust í bikarkeppninni í síðustu viku og þá hafði KA betur, 26:23, í skemmtilegum leik.