Fara í efni
Þór

Þór í átta liða úrslit bikarkeppninnar

Jóhann Einarsson gerð átta mörk í bikarleiknum í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar eru komnir í átta liða úrslit bikarkeppninnar í handbolta. Þeir burstuðu lið ÍBV2 í Kórnum í Kópavogi í gær, 35:21. Tölurnar segja allt sem segja þarf, yfirburðir Þórs voru miklir. 

Jóhann Einarsson gerði 8 mörk í leiknum, Arnór Þorri Þorsteinsson 6, Heimir Pálsson 5, Halldór Yngvi Jónsson 4, Aðalsteinn Bergþórsson 3, þeir Viktor Jörvar Kristjánsson, Viðar Ernir Reimarsson og Jón Ólafur Þorsteinsson 2 hver og Kristján Gunnþórsson og Aron Hólm Kristjánsson 1 hvor. Tomislav Jagurinovski spilaði ekki bikarleikinn vegna meiðsla, hann snéri sig á ökkla í deildarleik daginn áður.

Á föstudaginn unnu Þórsarar annan stórsigur, þegar þeir mættu ungmannaliði Aftureldingar í Mosfellsbæ í næst efstu deild Íslandsmótsins, Grill 66 deildinni. Úrslitin urðu 41:26.

Heimir Pálsson, sem er nýfarinn að leika á ný eftir löng og erfið meiðsli, stal senunni í leiknum og gerði 10 mörk. Jagurinovski gerði 7, Arnþór Gylfi Finnsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 5, Viðar Ernir Reimarsson 4, Kristján Gunnþórsson, Jóhann Einarsson og Viktor Jörvar Kristjánsson með 2 mörk, bræðurnir Halldór Yngvi og Elvar Örn Jónssynir með 1 mark, sem og Josip Kezic. Sá síðastnefndi var í miklu gjafastuði og mataði samherja sína með stoðsendingum í öllum regnbogans litum.

Eftir sigurinn er Þór í fjórða sæti með 18 stig að loknum 12 leikjum. Efstu liðin hafa lokið 13 leikjum; ÍR er með 24 stig en Fjölnir og Hörður bæði með 20. Næst leikur Þórsara er á heimavelli, í Höllinni, næsta föstudagskvöld þegar Fjölnir kemur í heimsókn.