Fara í efni
Þór

Þór á toppnum ásamt Fjölni eftir sigur á HK U

Þórsarar fagna sigri á ungmennaliði Vals í Höllinni á Akureyri fyrir skömmu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar sigruðu ungmennalið HK 28:27 í dag í Grill66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Liðin mættust í Kópavogi. Fjölnir og Þór eru í efstu tveimur sætunum með sjö stig að loknum fjórum leikjum.

Ungmennalið KA, sem leikur í sömu deild, fagnaði einnig sigri í dag; KA-strákarnir unnu ungmennalið Víkings 30:29 í Víkinni.

HK-ingar voru skrefinu á undan Þórsurum lengstum í fyrri hálfleik en gestirnir skutust fram úr undir lokin og höfðu eins marks forskot þegar flautað var til hálfleiks, 15:14.

Jafnræði var með liðunum þar til 10 mínútur voru eftir að Þórsarar náðu frumkvæðinu. Þeir komust mest þremur mörkum yfir, 28:25, þegar Aron Hólm Kristjánsson skoraði sjötta sinni í leiknum. Þá voru tvær og hálf mínúta eftir. HK gerði tvö síðustu mörkin, það seinna fimm sekúndum fyrir leikslok.

Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 6, Arnþór Gylfi Finnsson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Andri Snær Jóhannsson 3, Viðar Ernir Reimarsson 3, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Hilmir Kristjánsson 1, Halldór Yngvi Jónsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 11 (29%).

Leikurinn í Víkinni var kaflaskiptur. Víkingar náðu mest sex marka forskoti í fyrri hálfleiknum en KA-strákarnir unnu muninn hægt og bítandi og voru komnir einu marki yfir í hálfleik, 15:14. Þeir voru svo yfir allan seinni hálfleikinn, forystan mest þrjú mörk og sigurinn sanngjarn.

Mörk KA: Dagur Árni Heimisson 8, Magnús Dagur Jónatansson 6, Hugi Elmarsson 6, Haraldur Bolli Heimisson 4, Jónsteinn Helgi Þórsson 3, Ernir Elí Ellertsson 1, Leó Friðriksson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1.

Varin skot: Óskar Þórarinsson 9 (23,7%).