Fara í efni
Þór

Þolinmæðin þrautir vinnur allar

Jewook Woo gerði fyrsta deildarmark sitt fyrir Þór í kvöld og fagnaði innilega; tók á rás út að hliðarlínu til Þorláks þjálfara og faðmaði hann! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór og Grindavík gerðu 1:1 jafntefli í kvöld í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næst efstu deild Íslandsmótsins, í blíðviðri á Þórsvellinum (SaltPay vellinum). Grindvíkingar skoruðu í fyrri hálfleik en Suður-Kóreumaðurinn Joewook Woo jafnaði með skoti frá vítateigslínu þegar komið var fram yfir hefðbundinn leiktíma. Ekki var nema von að hann og aðrir Þórsarar fögnuðu innilega þessu fyrsta marki hans í deildinni.

Grindvíkingar voru öflugri í fyrri hálfleik en annað var upp á teningnum í þeim seinni; Þórsarar sóttu nær látlaust allan hálfleikinn en Grindvíkingar vörðust af miklum móð. Erfiðlega gekk fyrir heimamenn í Þorpinu að brjótast í gegnum varnarmúrinn, þeir voru þó furðu rólegir og yfirvegaðir allt til enda og það skilaði sér.

0:1 Aron Dagur markvörður Grindvíkinga spyrnti langt fram vinstri kantinn, Bjarki bakvörður Þórs skýldi boltanum og talda hann hafa farið út af en aðstoðardómarinn var ekki á sama máli; Grindvíkingurinn Örvar Logi Örvarsson hélt því áfram, lék inn á teig og sendi á Dag Inga Hammer Gunarsson sem skoraði. Þetta var á 25. mínútu.

1:0 Komið var á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar Þórsarar náðu að jafna og tryggja sér eitt stig. Sammie Thomas McLeod sendi fram völlinn frá miðjum vallarhelmingi Þórs, tveir varnarmenn Grindvíkinga reyndu að ná til boltans en rákust saman, Jewook Woo tók á rás, lék upp að vítateig og skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _ _

DAUÐAFÆRI Sigurjón Rúnarsson, fyrirliði Grindvíkinga, fékk sannkallað dauðafæri á lokasekúndum fyrri hálfleiks. Boltinn barst til hans í markteignum en Sigurjón náði ekki almennilegu skoti og hitti ekki markið. Þórsarar sluppu þarna með skrekkinn.

_ _ _ _

JÖFNUNARMARKIÐ Jewook Woo skoraði með hnitmiðuðu skoti með vinstra fæti frá vítateig, þegar skammt lifði leiks og óhætt er að segja að fögnuður hans og annarra Þórsara hafi verið innilegur!

_ _ _ _

RAUTT SPJALD Fljótlega eftir jöfnunarmarkið var Grindvíkingurinn Thiago Dylan Ceijas rekinn af velli. Hann tæklaði Elmar Þór Jónsson grimmilega og þrátt fyrir ítarlegar ábendingar Grindvíkinga um sakleysi leikmannsins dró Sigurður Hjörtur Þrastarson dómari rauða spjaldið úr vasa sínum.