Fara í efni
Þór

Þjálfarateymi Þórs/KA og Hamranna hættir

Bojana Kristín Besic, Perry Mclachlan og Andri Hjörvar Albertsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Andri Hjörvar Albertsson, Bojana Kristín Besic og Perry Mclachlan hafa látið af störfum sem þjálfarar hjá Þór/KA og Hömrunum. Þetta kemur fram á heimasíðu liðsins.

Stjórn Þórs/KA hefur ákveðið að nýta sér uppsagnarákvæði í ráðningarsamningum þjálfarateymisins. Þetta er niðurstaðan eftir ítarlega yfirlegu og umræður innan stjórnarinnar um stöðu félagsins og framtíðaráform, segir á heimasíðunni.

Þar segir ennfremur:

„Andri Hjörvar tók við sem aðalþjálfari fyrir tímabilið 2020, en hann hafði áður verið aðstoðarþjálfari Halldórs Jóns Sigurðssonar frá 2017. Eftir að Andri Hjörvar tók við sem aðalþjálfari komu Bojana og Perry inn í teymið sem aðstoðarþjálfarar, en Bojana var einnig aðalþjálfari Hamranna og Perry sá að auki um þjálfun markvarða.

Stjórnin þakkar þeim fyrir störf þeirra í þágu félagsins og kvennaknattspyrnunnar á Akureyri og óskar þeim velfarnaðar í nýjum verkefnum.

Nú tekur við vinna hjá stjórninni við að leita að nýjum þjálfurum og móta með þeim framtíðarsýn.

Endurskipulagning og aukin umsvif

Jafnframt stendur fyrir dyrum vinna við endurskipulagningu liðanna með aldursdreifingu leikmanna í huga, út frá þátttöku í 2. deild og/eða 2. flokki, ásamt því að frá og með næsta tímabili verður rekstur 3. flokks kvenna færður undir Þór/KA. Félögin hafa tvö undanfarin tímabil teflt fram sameiginlegu liði Þórs/KA/Hamranna í 3. flokki, sem rekið hefur verið af unglingaráðunum, en færast nú undir sama hatt og meistaraflokkur.“