Fara í efni
Þór

Tap í sveifluleik og enn meiðist Þórsari!

Jérémy Jean Bernard Landenbergue, í rauða bolnum, meiddist í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Það á ekki af körfuboltaliði Þórs að ganga í vetur. Ekki nóg með að liðið hafi tapað 10 fyrstu leikjunum á Íslandsmótinu heldur meiddist enn einn erlendi leikmaðurinn í leiknum gegn KR í kvöld. KR-ingar unnu 83:74 í Reykjavík.

Áður hafa tveir erlendir leikmenn Þórs haldið til síns heima í vetur vegna meiðsla og  óttast er að Svisslendingurinn Jérémy Landenbergue hafi meiðst alvarlega í kvöld – jafnvel slitið krossband í hné.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 15:26 – 19:8 – 34:34 –20:26 – 29:14 – 83:74

Leikurinn í KR-heimilinu var ótrúleg sveiflukenndur, eins og tölurnar hér að ofan sýna vel.  Þórsarar byrjuðu miklu betur og unnu fyrsta fjórðung örugglega en KR-ingar snéru blaðinu heldur betur við í þeim næsta. Þórsarar unnu þriðja leikhluta en höfðu svo ekki roð við heimamönnum í loka leikhlutanum.

Það var snemma seinni hálfleiks sem Svisslendingurinn meiddist.  Vísir segir svo frá: „Gestirnir byrjuðu leikinn mjög vel í seinni hálfleik og komust aftur í sjö stiga forskot þegar óheppnin reið aftur yfir liðið þegar um fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. Þá stal Jérémy Landenburg boltanum fyrir Þór, geystist upp til að skora en hitti ekki sniðskotinu og lenti illa. Hann var studdur af velli og lítur út fyrir að hann hafi meiðst alvarlega á hné og jafnvel slitið krossband. Það er enn eitt meiðslaáfallið fyrir Þór frá Akureyri í vetur.“

Bandaríkjamaðurinn Jonathan Lawton og Írinn Jordan Connors, meiddust báðir og fóru heim í haust. Tveir komu í þeirra stað, Bandaríkjamaðurinn Reggie Keely og Landenbergue. Sá síðarnefndi gat ekki tekið þátt í fyrsta leiknum eftir að hann kom því hann meiddist á fyrstu æfingu, en hafði spilað þrjá leiki fyrir kvöldið.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.