Þór
Svíarnir búnir að gera upp við KA/Þór
16.02.2023 kl. 12:00
Aldís Ásta Heimisdóttir fagnar marki í leik með KA/Þór. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Sænska handboltaliðið Skara HF hefur gert upp skuld sína við KA/Þór vegna félagaskipta Aldísar Ástu Heimisdóttur, sem fór frá Akureyri til sænska liðsins fyrir þessa leiktíð.
Vika er síðan Akureyri.net greindi frá því að Svíarnir hefðu enn ekki greitt krónu af umsamdri upphæð. Voru forráðamenn KA/Þórs óhressir með gang mála. Í kjölfarið hélt talsmaður Skara því fram í sænskum fjölmiðli að misskilningi eða tungumálaörðugleikum væri sennilega um að kenna. Hvort sem menn leggja trúnað á þá skýringu eður ei hefur skuldin nú altjent verið greidd. Féð var lagt inn á reikning KA/Þórs í gær og málið er þar með úr sögunni.
Frétt Akureyri.net í síðustu viku: Skara hefur enn ekki greitt fyrir Aldísi