Fara í efni
Þór

Svekkjandi tap Þórs gegn Fjölni

Fjölnismenn fagna eina marki leiksins en Þórsarar voru hundsvekktir að vonum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði 1:0 gegn Fjölni í 15. umferð Lengjudeildar karla á VÍS-Vellinum (Þórsvelli) nú í kvöld. Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði eina mark leiksins þegar aðeins um fimm mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma.

Heimamenn byrjuðu leikinn vel og fengu góð færi til að komast yfir strax í upphafi leiks. Fannar Daði Gíslason fékk gott skotfæri og gott skallafæri á fyrstu fimm mínútum leiksins. Eftir góðar upphafsmínútur Þórsara þar sem þeir voru töluvert sterkari aðilinn var meira jafnræði með liðunum það sem eftir lifði hálfleiksins. Staðan var markalaus þegar Helgi Mikael Jónasson dómari leiksins, flautaði til loka fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikur hófst svipað og sá fyrri endaði. Ekki var mikið um færi en þó voru það heimamenn sem voru líklegri til að skora heldur en gestirnir. Gestirnir úr Grafarvoginum voru fengu þó einhver færi en Aron Birkir var vel á verði í marki Þórsara þegar á þurfti að halda.

Eina mark leiksins kom á 85. mínútu og það var Guðmundur Karl Guðmundsson sem kom Fjölnismönnum yfir. Miðvörður Fjölnis átti þá langa sendingu upp hægri kantinn þar sem Máni Austmann Hilmarsson náði til boltans og keyrði inn í teig. Máni renndi boltanum svo út í miðjan teiginn þar sem Guðmundur var aleinn og renndi boltanum í netið.

Lokatölur urðu því 1:0 fyrir Fjölnismenn og annað 1:0 tap Þórsara í röð staðreynd. Eins og í leiknum gegn Leikni á laugardaginn var spilamennskan heilt yfir góð en á meðan liðið nýtir ekki færin þá er alltaf möguleiki á að fá svekkjandi mark á sig í lokin þegar leikirnir eru jafnir.

Eftir leikinn er Þórsliðið nú í 8. sæti deildarinnar en er samt sem áður einungis þremur stigum fyrir ofan Njarðvík sem situr í fallsæti þegar sjö umferðir eru eftir af mótinu. Næsti leikur Þórsliðsins er föstudaginn 11. ágúst þegar liðið sækir Ægismenn heim.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum.

Nánari umfjöllun og myndasyrpa í kvöld