Fara í efni
Þór

Sveinbjörn og Rúnar fögnuðu sigri

Sveinbjörn Pétursson og Rúnar Sigtryggsson.

Sveinbjörn Pétursson lék vel með EHV Aue í þýsku 2. deildinni í handbolta í gærkvöldi, þegar liðið fékk Eisenach í heimsókn og vann sannfærandi sigur, 30:25. Rúnar Sigtryggsson, fyrrverandi lærifaðir Sveinbjörns hjá liðum Þórs, Akureyrar - handbolta og Stjörnunnar, stjórnaði Aue í fyrsta skipti í gærkvöldi, aðeins degi eftir að hann hljóp í skarðið að beiðni stjórnenda félagsins, vegna veikinda aðalþjálfarans. Staðan í hálfleik var 14:9.

Aue hefur unnið fjóra leiki í deildinni, gert eitt jafntefli og tapað einum leik.

„Þetta var góður sigur liðsheildarinar. Menn eru nýkomnir af stað eftir að hafa verið í löngu Covid stoppi en lögðu allt í sölurnar og gleymdu því að þeir hafi verið veikir og slappir. Menn náðu að setja það til hliðar og leggja sig gríðarlega vel fram í leiknum,“ sagði Sveinbjörn við Akureyri.net í gærkvöldi. Hann varði 14 skot, þar af eitt vítakast.

„Rúnar kom líka sterkur inn með sínar áherslur og lagði leikinn vel upp. Það er mikið hungur í mönnum eftir að hafa verið í pásu svona lengi og gefur okkur bara auka orku.

Auðvitað er leiðinlegt að þjálfarinn okkar sé svona veikur en menn eru þá bara ennþá ákveðnari í að sýna honum að við séum að berjast fyrir hann. Ég sjálfur átti ekki góðar mínútur um helgina og það gaf mér auka spark til að spila betur í kvöld. Framundan eru margir leikir, sem er ekkert annað en forréttindi þessa dagana; maður nýtur hverrar æfingar og hvers leiks sem að maður fær að taka þátt í,“ sagði Sveinbjörn í gærkvöldi.