Fara í efni
Þór

Súrrealískt að skora þrjú í Evrópuleik

Sigurður Marinó fagnar öðru marki sínu og fjórða marki Þórs í Evrópuleiknum gegn Bohemians á Þórsvellinum sumarið 2012. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tíu ár voru á dögunum síðan Þórsarar unnu eftirminnilegan 5:1 sigur á írska liðinu Bohemians á heimavelli í Evrópukeppninni í knattspyrnu.

Leikurinn er ógleymanlegur, bæði vegna glæsilegs sigurs en einnig vegna þessi að Sigurður Marinó Kristjánsson gerði þrjú mörk og varð aðeins annar leikmaðurinn til að afreka það með íslensku liði í Evrópukeppni.

„Ég man að ég lét út úr mér í viðtali eftir þrennuna að þetta væri tölfræði á við Messi og Ronaldo! Þrjú mörk og tvær stoðsendingar í tveimur leikjum. Það var reyndar ekki mikil innistæða fyrir því að segja svona eftir að hafa afrekað það einu sinni enda meira sagt í gríni en alvöru. En öllu gríni fylgir nokkur alvara!" segir Siggi í samtali við Akureyri.net þegar hann rifjar upp kvöldið eftirminnilega.

  • Enginn hefur gert þrennu fyrir íslenskt lið í Evrópukeppni síðan Siggi Marinó á Þórsvellinum 12. júlí 2012, svo hann og Hörður Sveinsson, leikmaður Keflavíkur, eru þeir einu; Hörður gerði fjögur mörk gegn Etzella frá Lúxemborg árið 2005.
  • Sigurður Marinó átti þátt í öllum fimm mörkunum því auk þess að skora þrjú átti hann tvær stoðsendingar! Hin tvö voru gerð eftir að hann tók hornspyrnu.
  • Þór var, og er enn, eina íslenska liðið úr næst efstu deild sem kemst áfram í Evrópukeppni.

„Leikurinn er mér auðvitað í fersku minni – og dagurinn allur. Ég var að þjálfa hjá Þór á þessum tíma og man að leikmenn Bohemians mættu á Þórssvæðið um morguninn, þar sem ég var að vinna. Þeir höguðu sér eins og alvöru atvinnumenn og ég fékk á tilfinninguna að þeim þætti það eiginlega fyrir neðan virðingu sína að vera þarna,“ sagði Sigurður. 

„Þeir voru töluvert betri en við í fyrri leiknum á Írlandi; hefðu getað unnið með tveggja eða þriggja marka mun en við gerðum vel með því að koma í veg fyrir það og leikurinn fór 0:0. Mér fannst eins og þeir gerðu ráð fyrir að vinna okkur auðveldlega hérna heima.“

Bohemians gerði fyrsta markið á Þórsvellinum eftir rúmar 20 mínútur „en það virtist ekki hafa nein áhrif á okkur, það var mikil trú í Þórsliðinu þennan dag. við héldum bara áfram, jöfnuðum og komumst yfir í fyrri hálfleik. Ég man að ég var svolítið stressaður í hálfleik en svo fórum við út aftur og gengum frá þeim.“

Siggi jafnaði á 36. mínútu með glæsilegu skoti frá vítateig; sendi boltann efst í hornið, og aðeins þremur mín. síðar kom Orri Freyr Hjaltalín Þór yfir með skalla eftir horn.

Fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar varnarmaður Bohemians gerði sjálfsmark. Siggi tók horn og sá írski skallaði í eigin mark. „Hann var eiginlega ekki undir neinnu pressu. Þetta var ótrúlega klaufalegt mark,“ segir Sigurður Marinó.

Hann gerði þriðja mark sitt og fjórða mark Þórs á 73. mín. og það síðasta á lokaandartökum leiksins. „Þeir voru komnir framarlega, boltinn barst til Halldórs Orra [Hjaltasonar] sem sendi fram þannig að ég komst einn í gegn. Ég ætlaði að klobba markmanninn en hann varði, ég náði frákastinu og skoraði með vinstri.“

Gaman að vera hluti af sögunni

Þórsarar féllu úr leik í næstu umferð þegar þeir mættu FK Mlada Boleslav frá Tékklandi, töpuðu 3:0 úti og 1:0 heima, þar sem liðið fékk tvær vítaspyrnur en skoraði úr hvorugri. „Það var sterkt lið en við fengum á okkur tvö ótrúlega klaufaleg mörk úti, markið hér heima var líka ömurlegt og við klúðruðum tveimur vítum! Ef við hefðum staðið aðeins betur í lappirnar hefðum við getað gert alvöru tilraun til að komast áfram.“

Siggi segist þó stoltur af liðinu þetta sumar og er vitaskuld ánægður með eigið framlag.

„Þetta eru einu Evrópuleikir Þórs í sögunni og við Orri Hjaltalín erum þeir einu sem höfum skorað í Evrópukeppni fyrir félagið. Það er gaman að eiga hlut í þessum kafla í sögu Þórs og ég verð að viðurkenna að ég hef nokkrum sinnum horft á video frá heimaleiknum, en það er reyndar langt síðan síðast. Ég þarf að horfa á þetta fljótlega og rifja upp! Við eigum Haraldi Loga Hringssyni það að að þakka að til eru mörg video frá þessum tíma,“ segir hann.

Súrrealískt

Sigurði gekk mjög vel sumarið 2012 og það kom honum ekki á óvart. „Ég æfði aukalega hjá Gísla Sigurðssyni frjálsíþróttaþjálfara um veturinn, ákvað að koma mér í gott stand og var í hörkuformi. Það hefur marg sannað sig að það borgar sig að æfa aukalega ef maður ætlar að ná árangri. Ég hef aldrei skorað mikið, lék á vinstri kanti þetta sumar og lagði upp töluvert af mörkum og mér finnst það í rauninni súrrealískt, mjög óraunverulegt, að hafa gert þrjú mörk í Evrópuleik. Við vorum í næst efstu deild, töpuðum bikarúrslitaleiknum sumarið áður – sem var auðvitað ótrúlegt því við áttum fimm stangarskot! – en féllum það sumar, sem var miklu meira svekkjandi en að detta svo út úr Evrópukeppninni.“

Leikurinn gegn Bohemians á Þórsvellinum er örugglega sá eftirminnilegasti á ferli Sigurðar en lífið gekk sinn vanagang daginn eftir. „Ég fór bara heim eftir leikinn og morguninn eftir flaug svo með fyrstu vél suður. Ég var að þjálfa 6. flokk með Björk Nóadóttur og við vorum að spila á Símamótinu.“

Sigurður Marinó lék nokkrar mínútur í fyrsta leik Þórs á Íslandsmótinu þessu tímabili en er nýlega byrjaður að spila á ný eftir hrakfallasumar. Nánar um það síðar.

  • Þórsarar sigla lygnan sjó í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins þegar þrír leikir eru eftir. Þeir mæta Þrótti í Vogum í dag og hefst leikurinn klukkan 16.00.

Sigurður Marinó í sigurleiknum gegn HK á dögunum. Fyrir aftan er Orri Sigurjónsson en Atli bróðir hans, sem nú leikur með KR, var lengi samherji Sigurðar Marinós í yngri flokkum Þórs og meistaraflokki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson