Fara í efni
Þór

Suður-Kóreumaður til liðs við Þórsara

Je Wook Woo, suður-kóreski framherjinn sem samið hefur við Þór.

Knattspyrnudeild Þórs hefur samið við Suður-Kóreumanninn Je Wook Woo, 27 ára framherja. Hann kom til reynslu á dögunum, æfði með Þórsurum í nokkra daga og spilaði einn leik, og í kjölfarið var ákveðið að bjóða honum samning.  Woo kemur til Akureyrar 1. febrúar.

Woo gegndi herþjónustu síðustu tvö ár og lék samhliða því með 4. deildarliði í heimalandinu. „Leikmenn mega ekki spila í efri deild í Suður-Kóreu á meðan þeir eru í hernum,“ sagði Þorlákur Árnason, þjálfari Þórs, við Akureyri.net í dag. „Þetta er góður leikmaður; sterkur, duglegur, heldur bolta vel og á eftir að hjálp öðrum leikmönnum í okkar unga liði.“

Woo hefur leikið í næsta efstu deild í Ástralíu, þar sem líkamsstyrkur skiptir miklu máli, að sögn Þorláks, og „okkur leist vel á hann fyrir íslenska boltann. Hann er líka góður í hóp, við fundum að hann aðlagaðist hópnum vel strax. Þetta er einmitt sú gerð af leikmanni sem okkur fannst vanta í hópinn.“

Til stóð að Woo yrði lengur á Akureyri en raunin varð og spilaði annan leik. Eftir að hann fékk hins vegar tilkynningu um að maður smitaður af Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefði verið á sama svæði í flugstöðinni við brottför frá Suður-Kóreu, varð Woo að drífa sig heim á ný. Vegna hertra reglna hefði hann að öðrum kosti orðið að vera í sóttkví um jólin! Þórsarar töldu sig þá þegar hafa séð nóg til hans, ákváðu að bjóða honum samning og gengið frá öllum formsatriðum í morgun.

Suður-Kóreumaðurinn spilaði einn leik með Þór sem fyrr segir. Liðið vann KA2 í Kjarnafæðimótinu, 7:0, og Woo gerði fjögur mörk.