Þór
Strákarnir töpuðu naumlega í Finnlandi
22.09.2021 kl. 06:00
Landslið 15 ára og yngri. KA-mennirnir eru lengst til hægri í aftari röð, markvörðurinn Ívar Arnbro Þórhallsson og fyrirliðinn, Elvar Máni Guðmundsson. Nökkvi Hjörvarsson, Þórsari, er númer 10, annar frá vinstri í neðri röð.
Landslið 15 ára og yngri í knattspyrnu tapaði naumlega, 4:3, fyrir Finnum í vináttuleik í borginni Mikkeli í gær. Tveir KA-menn og einn Þórsari voru í byrjunarliðinu; Elvar Máni Guðmundsson var fyrirliði og félagi hans úr KA, Ívar Arnbro Þórhallsson, stóð í markinu. Þórsarinn Nökkvi Hjörvarsson byrjaði einnig.
Elvari Máni og Nökkvi léku fyrri hálfleikinn en Ívar allan tímann. Átta varamenn fengu að spreyta sig, meðal þeirra var Nóel Atli Arnórsson, sem kom inn á fyrir Elvar Mána í hálfleik. Nóel Atli er búsettur í Danmörku, sonur hins kunna handboltamanns Arnórs Atlasonar, sem gerði garðinn frægan með KA og landsliðinu á árum áður.
Staðan í hálfleik var 3:1 fyrir Finna. Þjóðirnar mætast aftur á sama stað á morgun, fimmtudag.