Fara í efni
Þór

Stórsigur Þórsstelpna en strákarnir töpuðu

Þórsliðið fyrir sigurinn á b-liði Breiðabliks í gær. Aftari röð frá vinstri: Daníel Andri Halldórsson þjálfari, Eva Wium Elíasdóttir, Heiða Hlín Björnsdóttir, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Madison Anne Sutton, Rut Herner Konráðsdóttir og Hugrún Birta Bergmannsdóttir. Fremri röð frá vinstri: Valborg Elva Bragadóttir, Vaka Bergrún Jónsdóttir, Karen Lind Helgadóttir, Hrefna Ottósdóttir, Kristín María Snorradóttir og Tuba Poyraz.
Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Kvennalið Þórs í körfubolta vann fimmta leikinn í röð þegar b-lið Breiðabliks kom í heimsókn í Íþróttahöllina í gærkvöldi; yfirburðirnir voru reyndar  svo ótrúlegir að ekki þarf að fara mörgum orðum um leikinn. Staðan eftir fyrsta leikhluta var til dæmis 20:2, í hálfleik stóð 49:10 og lokatölur voru 100:25.

Madison Anne Sutton gerði 14 stig í leiknum, tók 12 fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal boltanum átta sinnum. Eva Wium Elíasdóttir gerði 12 stig, tók níu fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og stal boltanum líka átta sinnum. Hrefna Ottósdóttir gerði 18 stig, tók fimm fráköst og átti eina stoðsendingu. Heiða Hlín Björnsdóttir gerði 13 stig, Karen Lind Helgadóttir gerði 12 stig og tók sjö fráköst og Rut Herner Konráðsdóttir tók 10 fráköst.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.

Þórsliðið er áfram í öðru sæti deildarinnar, hefur nú 28 stig en Stjarnan er efst með 30 stig og á einn leik til góða.

Strákarnir töpuðu

Karlalið Þórs tók á móti Akurnesingum í Íþróttahöllinni í næst efstu deild Íslandsmótsins á undan kvennaleiknum. Strákarnir hafa verið í sterkum mótvindi í vetur og svo var enn í gærkvöldi; þeir töpuðu 97:67 eftir að munurinn var aðeins 11 stig í hálfleik, 46:35.

Vitað var fyrirfram að leikurinn yrði erfiður og ekki bætti úr skák að Hlynur Freyr Einarsson er fótbrotinn, Toni Cutuk er einnig meiddur, Baldur Örn Jóhannesson veikur og Kolbeinn Fannar Gíslason gat ekki leikið vegna vinnu, að því er segir á heimasíðu Þórs.

Þórsarar tefldu því fram mjög ungu liði auk þess sem Róbert Orri Heiðmarsson lék hluta leiksins en hann hefur nánast ekkert verið með í vetur.

Smári Jónsson skaraði fram úr í Þórsliðinu að þessu sinni,  gerði 31 stig, tók fjögur fráköst og átti níu stoðsendingar, Zak Harris gerði 17 stig og tók sex fráköst, Andri Már Jóhannesson gerði 11 stig og tók sex fráköst.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.