Fara í efni
Þór

Steypa plötuna í Garðinum hans Gústa

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Vinna stendur yfir við gerð veglegs körfuboltavallar með áhorfendastúku á lóð Glerárskóla. Hópur manna hófst handa við það í dag að steypa plötuna og lýkur verkinu fyrir kvöldið. Gerviefni verður síðar lagt ofan á steypta plötuna.

Völlurinn, Garðurinn hans Gústa, er reistur í minningu Ágústs H. Guðmundssonar, körfuboltaþjálfara, sem lést í upphafi árs langt fyrir aldur fram og verður mannvirkið afhent Akureyrarbæ í nafni Ágústs heitins, þegar aðstaðan verður fullbúin.

Nokkrir vinir Ágústs standa að verkefninu. Hann lék með Þór á yngri árum, þjálfaði síðan hjá félaginu til fjölda ára og er sigursælasti þjálfari þess frá upphafi. Ágúst starfaði mest við þjálfaun í íþróttahúsi Glerárskóla og því fannst vinum hans við hæfi að völlurinn yrði við þann skóla.

Ágúst var harður aðdáandi bandaríska körfuboltaliðsins Boston Celtics og því þótti beinast við að völlurinn fengi nafnið Garðurinn, en heimavöllur Celtics lengi gengið undir þessu nafni; Boston Garden var ein frægasta keppnishöll í sögu bandarísku NBA deildarinnar en núverandi höll félagsins kallst TD Garden.

Vert er að minna á fjársöfnun vegna verkefnisins, en þeir félagar ætla að safna fyrir helmingi kostnaðar en Akureyrarbær leggur til hinn helminginn. Reikningsnúmer söfnunarinnar er 0302-26-000562. Kennitala: 420321-0900.

Smellið hér til að sjá frétt um fyrstu skóflustungu að Garðinum hans Gústa