Fara í efni
Þór

Stelpurnar töpuðu með minnsta mun fyrir Val

Melissa Lowder markvörður Þórs/KA varði vítaspyrnu gegn Val í gærkvöldi en gat ekki komið í veg fyrir sigurmark Reykjavíkurliðsins. Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði naumlega fyrir Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda í gærkvöldi í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Stórglæsilegt mark Þórdísar Elvu Ágústsdóttur snemma í seinni hálfleik skildi liðin að þegar upp var staðið - úrslitin 1:0.

Valur var betri í fyrri hálfleik og fékk prýðileg færi til að skora, það besta Ásdís Karen Halldórsdóttir þegar vítaspyrna var dæmd á lokasekúndum hálfleiksins. Hún spyrnti boltanum þéttingsfast, hann stefndi neðst í hægra hornið en Melissa Lowder, markvörður Þórs/KA, gerði sér lítið fyrir og varði.

Valsmenn sóttu áfram meira í seinni hálfleik og eina markið gerði Þórdís Elva á 54. mínútu. Hún smellhitti boltann með vinstri fæti þar sem hún var við vítateigshornið hægra megin og hann sveif í glæsilegum boga efst í hornið fjær.

Stelpurnar okkar fengu líka færi til að skora í leiknum en tókst því miður ekki. Því fór sem fór. Þór/KA er núna í sjötta sæti eftir sjö umferðir, hefur unnið þrjá leiki, en tapað fjórum. Smellið hér til að sjá stöðuna.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Næsti leikur liðsins verður gegn Selfossi á Þórsvellinum sunnudaginn 11. júní kl. 16.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, ræðir við leikmenn sína eftir viðureignina á Valsvellinum í gær. Mynd af vef Þórs/KA.